„Við getum ekki látið eins og þetta geti ekki gerst hér,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, í símaviðtali í Sprengisandi í morgun. Hann sagði ríkisstjórnina munu funda, m.a. með lögreglu, um stöðuna í öryggismálum á næstunni, eftir árásirnar í París.
Gunnar Bragi varaði þó eindregið við því að alhæfa um sekt ákveðinna hópa eða tengingu þeirra við hryðjuverkastarfsemi þó hluti árásarmannanna í París virðist hafa komið til Evrópu sem flóttamenn.
„Við megum ekki falla í þá gryfju að mála allt flóttafólk sem hryðjuverkamenn,“ sagði Gunnar Bragi. Það fólk sem sé á ferðinni í Evrópu þurfi langflest á aðstoð Íslendinga og annarra þjóða og vildi gjarnan snúa aftur heim, en þar sé einmitt að finna þá morðingja sem stóðu fyrir árásunum í París.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, var einnig gestur í þættinum. Hún sagði það mikilvægt nú að Íslendingar fylgist vel með því sem aðrar þjóðir í kringum okkur gera og treysti samstarf og samskipti við þær. Öryggismál og landamæravarsla þurfi að vera í stöðugri endurskoðun á tímum sem þessum en hún sagði lausn vandans ekki felast í endurskoðun á þáttöku í Schengen samstarfinu. „Ísland er hluti af heiminum og við eigum að haga okkar ákvörðunum í samræmi við það. Við höfum alltaf talað um það, Íslendingar, að vera í nánu samskipti við önnur ríki og það skiptir ekki síst máli þegar ógn steðjar að. Tökum þessa ógn alvarlega, förum yfir það sem þarf að gera hér heima en höldum í það sem skiptir okkur máli.“
Þá var Ólöf á sama máli og Gunnar Bragi hvað varðar neyð flóttafólks í Evrópu um þessar mundir. Ísland ætti að taka vel á móti þeim flóttamönnum sem hingað komi. Það sé nauðsynlegt að það verkefni takist vel upp svo ekki myndist óánægja og sundrung í kjölfarið. Þó svaraði hún því játandi að ekki hefði gengið nægilega vel að fá sveitarfélögin til þess að samþykkja að taka á móti fólki, en það megi ekki gerast að hér komi fjöldi fólks sem njóti ekki þjónustu sveitarfélaganna.
Strax við komuna ætti einnig að gæta þess að brýnt sé fyrir fólki að læra íslensku og gerðar ráðstafanir til þess að gera því það kleift. „Það er lykilatriði í því að taka á móti fólki á Íslandi að það læri íslensku svo það geti aðlagast íslensku samfélagi. Íslenskan er menningarlega djúpstæð hér og við þurfum að leggja mikið til málanna til þess að mæta þessu.“