Jarðskjálfti upp á 3,2 stig reið yfir í öskju Bárðarbungu skömmu eftir hádegi í dag. Stærð skjálftans hefur verið staðfest eftir yfirferð sérfræðinga á Veðurstofu Íslands.
„Skjálftinn varð í suðaustanverðri öskjunni,“ segir Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni í samtali við mbl.is.
„Við höfum mælt aukna jarðskjálftavirkni í öskjunni undanfarnar vikur og það varð þarna annar skjálfti yfir þremur stigum í síðustu viku,“ segir Einar. Hann bætir við að þessi þróun verði skoðuð ítarlega á næstu dögum af sérfræðingum Veðurstofunnar.
„Það voru mjög margir skjálftar á svæðinu eftir gosið en svo minnkaði virknin með tímanum. Nú er hún hins vegar aftur að aukast örlítið. Við sjáum að minnsta kosti mælanlegan mun og erum að reyna að fylgjast með þessu.“