Hryðjuverkamenn og fjöldamorðingjar eiga margir sameiginlegt að vera félagslega veikburða, hafa átt erfitt uppdráttar í skóla og finnst þeir utanveltu í samfélaginu. Það verður ekki leyst með vopnaburði heldur félagslegum aðgerðum. Þetta sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.
Árni Páll gerði hryðjuverkin í París á föstudag að umtalsefni í óundirbúinni fyrirspurn til Ólafar Nordal, innanríkisráðherra. Sagði hann auðvelt að kynda undir einangrunarhyggju og fordóma í kjölfar atburða sem þessara en hrósaði hann Ólöfu fyrir viðbrögð sín við þeim.
„Það er mikilvægt að yfirlýsingar stjórnvalda byggi ekki á hindurvitnum eða flökkusögum heldur staðreyndum og yfirvegaðri túlkun á þeim. Það hefur til dæmis ekkert komið fram sem styður við staðhæfingar um að opin landamæri Evrópu séu orsök þessara árása. Ekki neitt. Við skulum bregðast við aukinni löggæsluþörf ef hún er fyrir hendi en ekki búa hana til á grundvelli afbakaðra staðreynda,“ sagði Árni Páll.
Ólöf sagði að að mætti ekki takast að alið væri á ótta í kjölfar hryðjuverkanna reisa þyrfti fána frelsis enn hærra á loft þegar ráðist væri á grunngildi samfélagsins. Eina leiðin til að nálgast ógn af þessu tagi væri að taka höndum saman við samstarfslönd okkar gegn þessari ógnarvá.
„Ég held að það sé ekkert ástæða til að draga frekari ályktanir af þessu á þessu stigi málsins en að sjálfsögðu verðum við að gæta að því hvaða skref við tökum í framhaldinu,“ sagði hún.
Árni Páll sagði merkilegt að bæði ungir múslímar sem fremdu hryðjuverk og ungir menn vestanhafs sem fremja fjöldamorð ættu sameiginlegan bakgrunn. Í hryðjuverkum væri oftast um að ræða unga pilta af múslímskum uppruna sem hafi alist upp í viðkomandi ríkjum en upplifi sig utanveltu, félagslega veikburða, þeir finni sig ekki í skóla eða vinnu og eyði öllum sólahringum í tölvunni.
„Það er sláandi að svipaður er bakgrunnur þeirra sem gerast sekir um hrikaleg fjöldamorð í Bandaríkjunum á síðustu misserum. Þessi vandi, félagsleg einangrun, það að ungir piltar finni sig utanveltu í samfélaginu verður ekki leystur með vopnaburði lögreglu eða með löggæslu á landamærum, loka landamærum og tala illa um fólk af ákveðnum kynþætti. Hann verður leystur með félagslegum aðgerðu, með því að opna skóla, með því að fjölga tækifærum fyrir ungt fólk, með því að brjóta niður þessa félagslegu einangrun. Það ætti að vera markmið okkar fyrst og síðar við þessum hörmungaratburðum,“ sagði Árni Páll.
Ólöf sagði hins vegar engan vafa leika á að löggæsla skipti máli og hún væri órjúfanlegur hluti af frelsi. Mikilvægt væri að gera ekki lítið úr mikilvægum störfum lögreglu, hvort sem það væri gagnvart eigin borgurum eða að gæta öryggis í víðara samhengi.