Forsætisráðherra tjái sig varlega

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, spurði forsætisráðherra hvort hann ætti ekki að fara varlega með hvernig hann tjáir sig þegar fréttir af hryðjuverkaárásunum í París séu enn á reiki á þingi í dag. Tilefnið voru ummæli ráðherrans um að ráðamenn þyrðu ekki að tjá sig vegna „pólitísks rétttrúnaðar“.

Í viðtali á Bylgjunni í morgun hélt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, því fram að hann og aðrir forsætisráðherra vesturlanda þyrði ekki að tjá hug sinn um flóttamannamál af ótta við pólitískan rétttrúnað og að snúið yrði út úr orðum þeirra

„Til dæmis núna þegar þessi mikli straumur liggur til Evrópu. Þúsundi, jafnvel tugþúsundir á dag, þá segir það sig í rauninni sjálft að þar inn á milli getur leynst hættulegt fólk. Eins og hefur sést núna. En menn hafa ekki viljað segja þetta vegna þess hvernig þetta kynni að verða túlkað,“ sagði forsætisráðherra á Bylgjunni og vísaði til hryðjuverkanna í París á föstudag.

Öfgahópar ali á tortryggni

Birgitta las meðal annars upp þessi ummæli ráðherrans í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í dag og spurði hvort hann teldi ekki hættulegt að tjá sig með þessum hætti þegar öfgahópar reyndu að nýta sér ástandið til að ala á tortryggni gagnvart flóttamönnum og hvort hann ætti ekki að fara varlega með hvernig hann tjái sig áður en nokkuð liggi fyrir um hvort að flóttamenn hafi smyglað sér inn um landamærin með þeim hætti sem forsætisráðherra teldi að hefði gerst.

Forsætisráðherra sagði að öryggisþjónustur ýmissa landa hefðu sagt að hryðjuverkasamtök eins og Ríki íslams hefðu notfært sért flóttamannastrauminn og smyglað eigin liðsmönnum inn til Evrópu auk þess sem samtökin sjálf hefðu lýst því yfir. Með því að ræða þau mál væri síður en svo verið að búa til tortryggni. Almenningur færi ekki að halda að allir flóttamenn væru glæpamenn- og hryðjuverkamenn þó að bent væri á að glæpamenn hafi misnotað aðstöðu þessa fólks.

„Ég held að ef við viljum halda aftur af öfgahreyfingum hér á Íslandi eða annars staðar þá sé besta leiðin til þess sú að ræða hlutina eins og þeir raunverulega eru, annars erum við að búa til hættu á að fólk leiti á vit öfgahreyfinga,“ sagði Sigmundur Davíð.

Sakaði Birgittu um að þagga niður umræðu

Birgitta benti hins vegar á að fréttir af atburðunum í Frakklandi væru mikið á reiki og varaði við að einhverju væri kastað fram án þess að það hefði verið staðfest af þar til bærum yfirvöldum. Nú þegar hafi borist fréttir af því að sýrlenskum flóttamönnum hafi verið hafnað víða um Bandaríkin.

„Ég held að það sé mjög brýnt að við pössum okkur hvernig við tölum um þessi mál út af því að við megum ekki ala á óttanum gagnvart einhverjum tilteknum þjóðarbrotum, sér í lagi ekki fólki sem hefur þurft að fara í gegnum þær hörmungar daglega sem hafa átt sér stað einn dag í París,“ sagði hún.

Sigmundur Davíð sakaði Birgittu um að leggja til að þagga niður umræðuna. Ítrekað hann að hægt væri að treysta almenningi meira en hún virtist gera. Afskaplega fáum dytti í hug að flóttafólk væru glæpamenn eða hryðjuverkamenn þó að glæpasamtök nýti sér það þegar milljón manns streymi til Evrópu á nokkrum mánuðum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert