Íbúar Evrópu ætla að sameinast í einnar mínútu þögn til minningar um fórnarlömbin í París klukkan ellefu að íslenskum tíma í dag.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins og leiðtoga stofnana ESB um hryðjuverkaárásirnar í París.
„Evrópusambandinu er alvarlega brugðið og syrgir nú vegna hryðjuverkaárásanna í París. Árásunum var beint gegn okkur öllum. Þessari ógn munum við mæta í sameiningu, með öllum tiltækum ráðum og af vægðarlausri staðfestu.
Frakkar eru mikil og sterk þjóð. Gildi landsins, frelsi, jöfnuður og bræðralag, voru og eru Evrópusambandinu innblástur. Í dag stöndum við í sameiningu með Frökkum og ríkisstjórn Frakklands. Afleiðingar þessa skammarlega hryðjuverks verða þveröfugar við ásetninginn að baki því, sem var að sundra, skelfa og sá hatri.
Hið góða er illskunni yfirsterkara. Allt það sem unnt er að gera á evrópskum vettvangi til að tryggja öryggi Frakklands verður gert. Við munum taka til hvaða ráða sem þarf til að sigrast á öfgastefnu, hryðjuverkaógn og hatri.
Við, íbúar Evrópu, munum öll minnast 13. nóvember 2015 sem sorgardags. Öllum Evrópubúum er boðið að taka þátt í einnar mínútu þögn til minningar um fórnarlömbin á hádegi, mánudaginn 16. nóvember.“