„Ætlum við að halda fast í þá kenningu að það hafi ekki verið hatrið heldur sýrlenskt vegabréf sem grandaði fórnarlömbunum í París? Ætlum við að gera fórnarlömb hræðilegs stríðs að blórabögglum í hryðjuverkum sem kvalarar þeirra frömdu? Ætlum við, vel menntuð þjóð með bæði hjarta og heila, að sannfæra hvert annað um að múslimar séu vont fólk vegna þess að hryðjuverkamenn hafa misnotað trú þeirra?“
Þannig hljóðar brot úr grein eftir Þórunni Ólafsdóttur sem hefur verið birt á akkeri.is. Þórunn er formaður Akkeris, samtaka sem hafa það að markmiði að nýta þekkingu og reynslu sjálfboðaliða við að taka á móti fólki á flótta. Þórunn starfaði sem sjálfboðaliði á grísku eyjunni Lesbos í sumar, þar sem hún vann að móttöku flóttafólks.
Aðalpersóna greinar Þórunnar er sýrlenskur maður sem hún kynntist í Grikklandi í september. Hann flúði til Belgíu fyrir fimm árum og endurheimti sýrlenskt vegabréf sitt í haust.
„Í gær fékk ég skilaboð. „Mig langar að komast héðan. Ég er í alvörunni hræddur við að vera hérna eftir það sem gerðist í Frakklandi. Fólk er mjög hrætt og ég sé það í andlitum þess að við látum öll stjórnast af óttanum“. Svo bætti hann við „Ég er búinn að horfa á vegabréfið mitt í allan dag, nú þarf ég í alvörunni að hugsa mig tvisvar um áður en ég sýni það“. Vegabréfið sem hann hafði beðið eftir í næstum fimm ár var um tíma tákn um aukið frelsi hans. Hann var ekki lengur fastur innan landamæra landsins sem hann hefur mátt dúsa í síðasta hálfa áratuginn. En hvað nú?“ skrifar Þórunn.
Hún segir fólk á flótta ekki óvini Íslendinga. „Hið raunverulega áhyggjuefni eru ofsafengin viðbrögð og skilningsleysi við komu þeirra og tilvist.“