Schengen-samstarfið „nánast ónýtt“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Samstarf Evrópuríkja um landamæraeftirlit, svokallað Schengen-samstarf, er í uppnámi. Það er ekki bara í uppnámi, það er nánast ónýtt,“ sagði Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Rifjaði hann upp að samstarfið snerist um virkt ytra eftirlit en að lítið sem ekkert innra eftirlit eftir að fólk væri komið inn á svæðið.

„Staðan er sú að á degi hverjum streyma þúsundir manna óhindrað inn á Schengen-svæðið án vegabréfaáritunar og oft með fölsuð skilríki. Margir þessara einstaklinga eru að flýja stríð og því ber okkur að taka á móti þeim þó ekki sé nema af mannúðarástæðum. Aðrir nýta sér ástandið í efnahagslegum tilgangi, vilja betra líf í vestrænum löndum, hærri laun, betra bótakerfi o.s.frv.,“ sagði þingmaðurinn. Sagði hann tölur hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, benda til þess að einungis 21% hælisleitenda sem komið hefðu til ríkja sambandsins væru frá Sýrlandi.

„Mér finnst frábært að geta ferðast um innan Schengen-svæðisins án sérstaks vegabréfaeftirlits. Eftirlit á ytri mörkum svæðisins er hins vegar einfaldlega ónýtt. Ekkert fer að draga úr flóttamannastraumi á næstunni eða á næstu árum. Það vita allir. Af hverju tökum við ekki upp alvöruumræðu um Schengen í stað þess að ýta vandræðunum á undan okkur þar til allt er komið í óefni?“ sagði Karl að lokum.

Frétt mbl.is: Schengen-samstarfið „í molum“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka