Vilja bætt aðgengi barna að bókum

Gríðarlegur mismunur er á milli skóla í Reykjavík þegar kemur …
Gríðarlegur mismunur er á milli skóla í Reykjavík þegar kemur að fjárframlagi til skólasafna, samkvæmt könnun félagsins. mbl.is/Kristinn

Félag fagfólks á skólasöfnum skorar á Reykjavíkurborg að bæta aðgengi reykvískra barna að bókum með því að tryggja skólasöfnum borgarinnar nægjanlegt fjármagn til bókakaupa. Það geti haft úrslitaáhrif á læsi barnanna.

Könnun sem félagið gerði í haust sýndi fram á að 600 barna skóli fékk 900 þúsund krónur til bókakaupa árið 2014 á meðan 500 barna skóli, innan sama hverfis, fékk 150 þúsund krónur til bókakaupa sama ár.

Í tilkynningu sem félagið hefur sent frá sér kemur fram að félagið fagni þeim áhuga sem mennta- og menningarmálaráðuneytið sýni lestrarmálum grunnskólabarna í kjölfar Hvítbókar, með Þjóðarsáttmála um læsi.

Tilkynningin heldur svo áfram:

„Markmiðið með sáttmálanum er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Það markmið helst í hendur við áherslur í starfsemi skólasafna í Reykjavík.

Skólasöfnin eru hornsteinn og hjarta í hverjum skóla og gegna grunnhlutverki í lestrarnámi barna. Þrátt fyrir það berjast skólasöfn í Reykjavík í bökkum ár hvert við að sjá til þess að börnin hafi úr nægilegu lesefni að velja og ekkert skólasafn telur sig ná því markmiði, flest eru mjög fjarri því.

Samkvæmt könnun sem FFÁS gerði haustið 2015 kemur fram gríðarlegur mismunur á milli skóla í Reykjavík þegar kemur að fjárframlagi til skólasafna. Sem dæmi um þetta fékk 600 barna skóli 900 þúsund krónur til bókakaupa árið 2014 á meðan 500 barna skóli, innan sama hverfis, fékk 150 þúsund til bókakaupa sama ár. Það liggur í augum uppi að þessi fjárframlög stuðla að gífurlegri mismunun á milli barna í Reykjavík.

Á skólasöfnum eru nýjustu bækurnar alltaf vinsælastar og stuðla mjög að auknum lestri barna. Með hækkun bókaskatts dugar fjárframlag upp á 150 þúsund á ári að meðaltali fyrir 30 nýjum barna- og unglingabókum. Það gefur augaleið að innkaup á einungis 30 bókum árlega í 500 barna skóla ýta ekki undir betri árangur í læsi barna og vinna þvert gegn markmiðum Þjóðarsáttmálans um læsi.

Bækur á skólasöfnum eru jafn nauðsynlegar fyrir nemendur og námsbækurnar. Það er því afar brýnt að Reykjavíkurborg hafi ákveðið viðmið þegar kemur að innkaupum á skólasöfn í borginni. Eðlilegt væri að miða við upphæð sem jafngildir kaupum á einni nýrri bók árlega á hvern nemanda skólans að lágmarki. Það myndi gera gæfumuninn fyrir lestrarárangur barna og væri grunnur að því að skapa jákvætt viðhorf til lestrar líkt og Hvítbók kallar eftir.

FFÁS skorar því á Reykjavíkurborg að bæta aðgengi reykvískra barna að bókum með því að tryggja skólasöfnum borgarinnar nægjanlegt fjármagn til bókakaupa, það getur haft úrslitaáhrif á læsi barna í Reykjavík.“

Fjármagn til bókakaupa geti haft úrslitaáhrif á læsi barnanna.
Fjármagn til bókakaupa geti haft úrslitaáhrif á læsi barnanna. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert