Vinna hófst í morgun við gerð 70 nýrra bráðabirgðabílastæða framan við aðalbyggingu Landspítala við Hringbraut. Áætlað er að búið verði að malbika stæðin eftir hálfan mánuð.
Þessi nýju bráðabirgðabílastæði koma í stað jafn margra bílastæða sem verður lokað milli kvennadeilda og K-byggingar þegar jarðvegsvinna hefst til að undirbúa byggingu nýs sjúkrahótels, samkvæmt upplýsingum frá Nýjum spítala.
Vinnusvæðið vegna gerðar bráðabirgðabílastæðanna verður afmarkað en engum umferðarleiðum lokað hvorki fyrir akandi né gangandi. Lágmarksáhrif verða því á starfsemi spítalans vegna þessara framkvæmda. Áhrifin felast aðallega í ferðum vörubíla til og frá vinnusvæði.
Með því að gera þessi nýju bráðabirgðabílastæði verða áfram í boði gjaldskyld stæði nærri spítalanum þótt síðar komi til tímabundinnar lokunar bílastæðanna við kvennadeildir og K-byggingu.
Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala (NLSH) við Hringbraut. Það rís á norðurhluta lóðar spítalans milli kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs og verður tekið í notkun árið 2017. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi og með tilkomu þess breytist aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur mikið til batnaðar.
Aðalhönnuður sjúkrahótelsins er KOAN-hópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar er unnin af Spitalhópnum. Húsið verður prýtt með steinklæðningum, listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmanni.
Sjúkrahótelið verður fjórar hæðir og kjallari. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð (brúttó), 14.780 rúmmetrar (brúttó) með kjallara og tengigöngum. Hótelið mun tengjast barnaspítala og kvennadeild um tengigang.