Útlit er fyrir óvenjulega hitasveiflu í háloftunum við Ísland á næstu dögum sem gæti haft þær afleiðingar að hitastigið á austanverðu landinu sveiflist um allt að þrjátíu gráður. Trausti Jónsson, veðurfræðingur, segist varla trúa slíkum öfgum og gerir ráð fyrir að sveiflan verði eitthvað minni.
Á bloggsíðu sinni skrifar Trausti um sviptingar í veðrakerfum í Bandaríkjunum og við Ísland. Mikið sé um að vera yfir Bandaríkjunum þar sem mikil háþrýstisvæði fari um. Sérlega óvenjuleg sé hvöss sunnanátt sem nái allt frá Mexíkóflóa og langt norður eftir.
Sú sunnanátt stuggi við kuldapolli sem marað hefur yfir Norður-Íshafinu þannig að hluti hans skerst úr honum og flæmist til suðurs austan við Ísland á morgun. Þannig verði óvenjukalt loft við landið sem fer hratt yfir suður til Evrópu. Trausti segir að kuldinn ætti að ná hámarki á veðurstöðum á Norðausturlandi aðfaranótt föstudags eða jafnvel síðar.
Vindarnir frá suðri færi hins vegar einnig með sér hlýtt loft til landsins á laugardag. Trausti segist vart trúa slíkum öfgum og telur að öfgarnar verði aðeins vægari á báða vegu.
„En við sjáum hér hitasveiflu upp á hátt í 30 stig í háloftum - hver verður hún við jörð? Nái að kólna verulega inn til landsins á Norðausturlandi gæti frost farið þar í -20 stig, kannski fer hiti svo vel yfir 10 stig einhvers staðar [s]uðausta[n]lands um helgina? Eftir helgina á síðan að kólna nokkuð aftur - eða hvað?“ spyr Trausti.
Pistillinn á bloggsíðu Trausta