„Þetta eru auðvitað bara gríðarleg vonbrigði að menn hafi ekki auðnast að semja í stað þess að stefna þessu fyrir dómstóla. Við teljum að það sé ótrúlegt að málið þurfi að fara á leið þar sem samningurinn er algerlega skýr,“ segir Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna hf., í samtali við mbl.is.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur sent bréf til Reykjavíkurborgar þar sem hafnað er kröfu borgarinnar um að svokallaðri neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli verði lokað. Lokun brautarinnar er forsenda framkvæmda Valsmanna á svæðinu. Brynjar vísar þar til samning á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 2013 um lokun flugbrautarinnar. Bendir hann á að enga fyrirvara sér að finna í samningum. Núna segi innanríkisráðherra hins vegar annað og virðist ekki telja sig bundinn af þeim samningum sem forverar hans hafi undirritað.
„Þetta eru bara gríðarlega vonbrigði og af þessu hlýst mjög mikið tjón,“ segir Brynjar. Það séu engir raunverulegir hagsmunir í húfi varðandi það að halda flugbrautinni opinni. Hún hafi einfaldlega verið notuð sem víglína í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll í heild sinni. Flugvöllurinn sé ekki að fara þó flugbrautinni verði lokað. „Stundum virðist manni að fólk skilji ekki hvaða skaði er af því að setja gildandi samninga í uppnám.“ Milljarðahagsmunir séu undir vegna fyrirhugaðra framkvæmda og verið sé að fara illa með almannafé vegna pólitíkur.