Hósta mönnum upp og gera þeim gylliboð

Jakob Valgeir Flosason, fjárfestir og fyrrum eigandi í Stím.
Jakob Valgeir Flosason, fjárfestir og fyrrum eigandi í Stím.

Stjórnarformaður Stíms segir að hann hafi stýrt félaginu „örugglega ekki vel.“ Þetta kom fram í vitnaleiðslum í Stím-málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Stjórnarformaðurinn Jakob Valgeir Flosason var einn af eigendum í félaginu ásamt meðal annars dótturfélagi Glitnis, nokkrum æskuvinum sínum og Saga Capital.

Hósta mönnum upp og gera þeim gylliboð

Það hefur verið gegnumgangandi við réttarhöldin að menn virðast lítið vita hver tók ákvörðun um hvaða hluti í tengslum við marg milljarða fjárfestingu Stíms og hvernig málið kom upphaflega til. Jakob sagði að upphaflega hafi Magnús Pálmi Örnólfsson, sem stjórnaði eigin viðskiptum Íslandsbanka og var áður sakborningur í málinu áður en hann samdi um friðhelgi, haft samband við sig til að taka þátt í fjárfestingunni. Í kjölfarið hafi hann að mestu verið í sambandi við annan starfsmann Glitnis, Elmar Svavarsson.

Í símtali sem leikið var í dómsalnum milli Elmars og Jakobs virtust þeir vera að ræða um málið, þótt Jakob hafi ekki geta staðfest það, og sagði Elmar þá að Jakob gæti örugglega „hóstað einhverjum nýjum mönnum upp“ sem fjárfestum og bætti við að það hlyti að vera hægt að „gera þeim einhver gylliboð“ t.d. með að „lána vel“ frá Glitni.

Stjórnarformaður en vissi ekki hver raunverulegur stjórnandi var

Jakob sagði að viðskiptin með Stím hafi að lokum kostað hann 150 milljónir sem hann setti fram sem eigið fé í fjárfestinguna. Var hann spurður af saksóknara hvernig félaginu hafi verið stýrt og svaraði hann: „örugglega ekki vel.“ Meðal annars hafi stjórnarfundir ekki verið haldnir. Aðspurður hvort hann hafi verið raunverulegur stjórnandi félagsins sagði Jakob að hann myndi ekki segja það. Þá spurði saksóknari hver hafi stjórnað félaginu. Jakob sagðist í raun ekki vita það.

Þegar kom að fyrrnefndu hlutafjárútboði FL group í desember 2007 sagðist Jakob aftur á móti muna eftir því. Sagðist hann hafa haft áhuga á að taka þátt í því. „Var það eina ákvörðun þín,“ fyrir félagið spurði saksóknari hann. „Já held það,“ svaraði Jakob. Þá mundi hann einnig eftir því þegar byrjað var að endurskipuleggja félagið en að það hafi ekki verið nákvæmlega á hans könnu. Einnig hafi hann væntanlega kvittað undir það þegar Stím fór í skuldastýringu hjá Glitni. Hann sagðist þó ekkert hafa fylgst með þeim málum og alveg látið starfsmanni Glitnis það eftir.

Verjandi í málinu rifjaði upp fyrri spurningar sínar um nokkra milljarða sem hann hefur ítrekað haldið fram að hafi horfið með „dularfullum hætti“ frá 3. til 8. október 2008 út úr félaginu til hluthafa í Stími. Jakob sagðist ekkert kannast við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert