Kvikmyndaver í Gufunesi

Horft til Gufuness frá Hallsteinsgarði.
Horft til Gufuness frá Hallsteinsgarði. mynd/Reykjavíkurborg

Borgarráð samþykkti í dag tillögu borgarstjóra um að ganga til viðræðna við RVK Studios um alhliða kvikmyndaver sem verður hluti af framtíðarmynd Gufuness og ein af forsendum í skipulagssamkeppni sem efnt verður til.

Ákvörðunin tekur jafnframt mið af tillögum stýrihóps um nýtingu svæðisins og viðbrögðum við auglýsingu Reykjavíkurborgar frá í sumar.

Þetta kemur fram á vef borgarinnar.

Þar segir ennfremur, að leikstjórinn Baltasar Kormákur og stjórnendur RVK Studios hafi í sumar óskað eftir viðræðum um kaup á hluta af gömlu Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi og úthlutun lóðar við húsið með það fyrir augum að byggja upp aðstöðu fyrir kvikmyndastarfsemi.

„Kvikmyndaver í Reykjavík mun stuðla að fjölgun verkefna og efla reynslu íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Með fleiri verkefnum eflist stöðugleiki í iðnaðinum, auk þess að til verður áhugaverður kostur fyrir hæfileikafólk sem hingað til hefur að mestu fundið verkefni við hæfi erlendis. Kvikmyndaver í Reykjavík mun þannig styrkja stoðir íslenskrar kvikmyndagerðar og framleiðslu sjónvarpsefnis og auka samkeppni á alþjóðlegum markaði,“ segir í erindinu.

Borgin segir, að borgarráð hafi samþykkt að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að ganga til viðræðna við RVK Studios á grundvelli fyrirliggjandi mats á verðmæti eignanna. Samhliða verði teknar upp viðræður við Íslenska gámafélagið um flutning þess af svæðinu og er það í samræmi við ákvæði í leigusamningi.

Leitað verður að lausn sem hentar báðum aðilum og er til skoðunar að Esjumelar á Kjalarnesi verði athafnasvæði Íslenska gámafélagsins þegar leigutími þess rennur út í lok árs 2018.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert