Hafísinn hefur færst nær landi og var um 44 sjómílur (81,5 km) norðvestur af Straumnesi í gær.
Heilmikill nýr ís er að myndast og allt bendir til þess að ísinn muni færast nær landi um helgina. Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði við Háskóla Íslands, sagði þó ekkert benda til þess að siglingaleiðir myndu lokast, að minnsta kosti ekki fyrst um sinn.
Á meðfylgjandi korti má sjá færslu hafíssins á tæpum sólarhring. Dökkbláa línan sýnir ísjaðarinn kl. 18.59 sl. miðvikudagskvöld. Millibláa línan sýnir jaðarinn kl. 08.21 í gærmorgun og sú ljósasta kl. 12.13 í gær. Það er ljóst að ísinn sækir hratt á auðan sjó.