„Það þarf ekki að spyrja að því ef einhver hefði verið að ganga þarna eftir gangstéttinni, þarna hefði getað orðið alvarlegt slys,“ segir starfsmaður utanríkisráðuneytisins í samtali við mbl.is um óhapp sem varð í Stórholti um hádegisbilið en þar er verið að sprengja í klöpp vegna framkvæmda við hótel sem er í byggingu.
Að sögn starfsmannsins hafa verið framkvæmdir við grunninn í nokkrar vikur. Enginn vinnufriður er fyrir látunum og nötrar húsið. Eftir fréttir sem bárust nýlega af svipuðu óhappi vegna sprenginga við grunninn, þar sem grjót þeyttist út á götu, var gert hlé á sprengingunum en síðan var hafist handa á ný í morgun.
Frétt mbl.is: Grjótið þeyttist út á götu
Tvisvar var sprengt og man starfsmaðurinn ekki til þess að viðvörunarflaut hafi borist á undan. Hafði hann að orði við fyrri sprenginguna að svo virtist vera að viðeigandi öryggisráðstafanir hefðu ekki verið gerðar, þ.e. að setja sprengjumottur eða vanda það verk vel, því upp gaus gífurlegur mökkur. Þá nefnir starfsmaðurinn einnig að götunni hafi ekki verið lokað þegar stóð til að sprengja.
Stuttu síðar var sprengt á ný. Við það þeyttist girðingin í kringum grunninn í burtu að hluta til og stórir grjóthnullungar þeyttust út á götuna og alveg upp að gangstéttinni við ráðuneytið. „Það þarf ekki að spyrja að því ef einhver hefði verið að ganga þarna eftir gangstéttinni, það er ótrúleg heppni að ekki varð slys á fólki en þarna er töluverð umferð af gangandi vegfarendum, til dæmis hópar ferðamanna,“ segir starfsmaðurinn.