Þórður Guðlaugsson var vélstjóri á togaranum Þorkeli mána RE 205 sem var í einu versta sjóveðri sem íslenskir sjómenn hafa þurft að glíma við á Nýfundnalandsmiðum árið 1959. Hann var úti í 12 stiga frosti og 25-30 m.sek. í 7-8 klst. klæddur í fingravettlinga að skera af skipinu með logsuðutæki til að létta það.
Sjórinn sem skall á skipinu fraus við það, því þyngdist það verulega og erfiðara var að stjórna skipinu. Þórður rifjaði upp atburðina með mbl.is í tilefni af því að nú er að koma út bók Óttars Sveinssonar, Útkall í hamfarasjó.
Veðrið var það versta sem Þórður hefur séð á þeim 50 árum sem hann stundaði sjóinn. Fleiri íslensk skip voru á miðunum við Nýfundnaland. Auk Þorkels mána voru þar Harðbakur, Júní, Júlí, Marz, Norðlendingur, Bjarni riddari og fleiri skip. Sjórinn var mínus tvær gráður og á þriðja hundrað íslenskir togarasjómenn voru í lífshættu. Júlí frá Hafnarfirði, fórst í óveðrinu og með honum 30 skipverjar.