„Tekjurnar í fjárlagafrumvarpinu hækka um 4,2 milljarða miðað við þær áætlanir sem til viðmiðunar voru þegar frumvarpið var samið, en útgjöldin hækka um 6,6 milljarða sem þýðir að afkoman versnar um 2,4 milljarða,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is.
En fyrr í dag greindi hún frá áformum ríkisstjórnar þess efnis að verja 400 milljónum aukalega til að efla almenna löggæslu í landinu fyrir 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2016.
„Það er búið að vera að kalla eftir auknu fjármagni í grunnstoðirnar og með þessu er verið að forgangsraða og bregðast við því,“ segir Vigdís og bætir við að innistæða sé fyrir þessari útgjalda aukningu, meðal annars vegna þess að tekjur ríkissjóð fari hækkandi.
Meðal þeirra málaflokka sem lagt er til að fái aukið fjármagn eru fangelsismál, um 40 milljónir, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík, sem hvor um sig fær 25 milljónir til eflingar tölvukennslu, Vatnajökulsþjóðgarður, um 150 milljónir til uppbyggingar, Sjúkratryggingar Íslands, um 100 milljónir til s-merktra lyfja, og 840 milljónir króna til reksturs sjúkrahúsa næstu þrjú árin til að stytta biðlista.
Þá var nýverið gengið frá 10 milljarða króna samkomulagi um samstarfsverkefni heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækis um átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi og segir Vigdís 280 milljónir koma til með að renna í það.
Vigdís ritaði færslu á Facebook-síðu sína fyrr í dag þar sem hún meðal annars sagði framsóknarmenn alltaf hafa staðið með lögreglunni í landinu og að það sé því mikið gleðiefni að nýjar 400 milljónir fari í eflingu hennar.
„Lögreglan er ein af grunnstoðum samfélagsins og hef ég alltaf talað fyrir því að við höfum hér öfluga löggæslu í landinu. Þessar tillögur hugnast mér því afar vel,“ segir Vigdís en að undanförnu hefur mikið verið ritað og rætt um stöðu lögreglunnar í landinu.
Þannig sagði meðal annars Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, í viðtali við Morgunblaðið fyrir helgi enn beðið viðbragða úr innanríkisráðuneytinu í kjölfar greinargerðar sem ríkislögreglustjóri sendi frá sér í apríl þar sem fram kemur að þörf er á mannafla, vopnum og búnaði í starfsemina.
Kemur einnig fram í greinargerðinni að þörf sé á 150 vélbyssum og að margvíslegur búnaður sérsveitar ríkislögreglustjóra sé úr sér genginn og þarfnist endurnýjunar.
„Það vantar fólk og það vantar búnað svo lögreglan geti staðið undir öryggishlutverki sínu,“ sagði Jón F. í áðurnefndu viðtali.