Ráðist gegn Menningarsetri múslima

Merki Menningarsetursins á Ýmishúsinu.
Merki Menningarsetursins á Ýmishúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Óprúttnir aðilar réðust gegn Ýmishúsinu um helgina vopnaðir grænni málningu. Var merki sem líkist „hinu alsjáandi auga“ málað á veggi, glugga og þak hússins sem hýsir m.a. Menningarsetur múslima.

„Við komum hingað í gærmorgun og það fyrsta sem við sáum á hurðinni var þessi teikning. Við litum í kringum okkur og sáum að einhver hafði klifrað upp á þakið og teiknað sama þríhyrninginn með auganu, á veggina og á glugga,“ segir Ahmad Seddeeq, ímam Menningarsetursins.

Merkið hefur verið tengt við Illuminati-regluna og gætu lesendur kannast …
Merkið hefur verið tengt við Illuminati-regluna og gætu lesendur kannast við merkið úr ýmsum kvikmyndum. mbl.is/Árni Sæberg

Seddeeq kveðst ekki þora að fullyrða um merkingu teikninganna enda séu margar leiðir til að túlka það.

„Ég get ekki svarað því,“ segir hann þegar spurt er hvort hann telji skemmdarverkin tengjast trúarbrögðum múslima. „Þetta eru skemmdarverk og sama hver ástæðan fyrir þeim er þá ættu þau ekki að eiga sér stað, sama hvers eðlis byggingarnar eru, þótt trúarlegar byggingar séu vissulega viðkvæmari.“

Seddeeq er ekki tilbúinn að alhæfa um tengingu skemmdarverkanna við aukna íslamafóbíu í kjölfar hryðjuverkanna í París en segir þó vissulega hægt að velta fyrir sér tímasetningunni.

„Þetta gerist eftir París og við höfum annars verið hér í þrjú ár. En vonandi er það ekki ástæðan.“

Á facebooksíðu Menningarsetursins eru skemmdarverkin fordæmd en tekið er fram að forsvarsmenn þess telji þau ekki endurspegla íslenskt samfélag. 

Menningarsetur múslíma á Íslandi fordæmir þau skemmdarverk sem framin voru á bænahúsinu í gærkvöldi.

Posted by Islamic Cultural Center of Iceland /Menningarsetur múslima á Íslandi on Sunday, November 22, 2015

Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar aðstoðaryfirlögregluþjóns munu vísbendingar vera kannaðar ef þær berast.

„Tilkynnt var um þessi eignaspjöll, enginn er grunaður og engar eftirlitsmyndavélar eru á vettvangi sem við getum nýtt okkur við rannsókn málsins. Við höfum ekkert til að fara eftir og meðan svo er þá er engin rannsókn í gangi.“

Merkið kallast á við Ýmishúsið sem er einmitt með þríhyrnduþaki.
Merkið kallast á við Ýmishúsið sem er einmitt með þríhyrnduþaki. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert