Búast má við snörpum vindhviðum undir Vatnajökli og á Austfjörðum í dag og hefur vindur farið yfir 30 metra á sekúndu í Hamarsfirði. Þar og í Lóni má reikna með 30-40 m/s í hviðum og fram eftir degi. Eins við Hornafjörð um tíma.
Það er hálka á höfuðborgarsvæðinu, Hellisheiði og í Þrengslum og á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi.
Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir og víða éljagangur. Snjóþekja er á Bröttubrekku og Svínadal.
Snjóþekja er víða á Vestfjörðum og snjókoma á sunnanverðum fjörðunum. Ófært er um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.
Á Norðurlandi er snjóþekja eða hálka á vegum og snjókoma og skafrenningur nokkuð víða.
Ófært er á Möðrudalsöræfum en annars er hálka eða hálkublettir á vegum á Austurlandi. Greiðfært er með Suðausturströndinni en víða er nokkuð hvasst.
Útlit fyrir ókyrrð í innanlandsflugi
„Norðvestan stormur geisar um austanvert landið í dag allt suður undir Vatnajökul og má reikna með öflugum hviðum. Það er því varasamt að keyra nálægt fjöllum á þessum slóðum, og einnig má búast við talsverðri ókyrrð í innanlandsflugi.
Með storminum eru él eða snjókoma fyrir norðan, einkum frá Siglufirði að Vopnafirði, en það dregur úr úrkomunni þegar líður á daginn og lægir síðan í nótt. Mun hægari vindur verður fyrir sunnan og vestan og víða bjart, en þó er útlit fyrir að dálítil él slæðist inn á V-vert landið eftir hádegi, þ.m.t. höfuðborgarsvæðið. Ef þau koma inn verður þó ekki mikil úrkoma sem fylgir þeim og líklegast að þetta verði jólalegur snjór ef einhver verður.
Á morgun verður síðan viðsnúningur á veðrinu, það hlýnar og fer að rigna, fyrst SV-til, en NA-lands undir kvöld. Annað kvöld bætir síðan í vindinn sem endar í suðvestanhvassviðri og áframhaldandi bleytu á fimmtudag. Seinni partinn snýst síðan aftur í norðlæga átt og kólnar með éljum fyrir norðan og helst það veður að mestu óbreytt fram yfir helgi,“ segir í hugleiðingum sem vakthafandi veðurfræðingur ritar á vef Veðurstofu Íslands í morgun.
Veðurspá fyrir næsta sólarhring:
Norðvestan 15-25 m/s með snjókomu eða éljum norðan- og austan til, hvassast undir Vatnajökli. Mun hægari sunnan- og vestanlands og víða bjart, en líkur á stöku éljum vestan til eftir hádegi. Frost 0 til 6 stig í dag.
Úrkomulítið um allt land í kvöld og lægir í nótt, suðlæg eða breytileg átt 3-10 á morgun. Byrjar að slydda og síðar rigna um og eftir hádegi, fyrst suðvestan til, en bjart með köflum norðaustanlands fram eftir degi. Vaxandi suðvestanátt annað kvöld. Hlýnar í veðri, hiti 3 til 7 stig vestan til undir kvöld, en um frostmark fyrir austan.