Nærri 100 útlendingar eru um þessar mundir að störfum hjá ýmsum aðilum í Þingeyjarsýslum, sem launþegar hjá fyrirtækjum sem eru undirverktakar til dæmis við mannvirkjagerð á svæðinu.
„Við fylgjumst vel með þróun mála og það eru miklir hagsmunir undir,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar – stéttarfélags á Húsavík, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Þegar erlendir starfsmenn koma til starfa á Íslandi er gangurinn oft sá, segir Aðalsteinn Árni, að hér séu þeir 180 daga á ári, en sé dagafjöldinn undir þeirri tölu þarf viðkomandi starfsmaður ekki að greiða skatta til íslenska ríkisins og atvinnugreiðandi sleppur jafnframt við ýmis launatengd gjöld.
„Þetta er löglegt, en mjög pirrandi því auðvitað þiggur þetta fólk margvíslega þjónustu af samfélaginu en greiðir lítið eða ekkert fyrir. Að mínu mati þurfa reglunar að vera þrengri en nú er,“ segir Aðalsteinn meðal annars.