Ekkert bólar á tillögum frá ríkisstjórninni í málum sem varða ungt fólk mestu, að sögn Katrínar Jakobsdóttur, þingmanns Vinstri grænna. Þau mál séu ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar á tíma þegar teikn séu á lofti um að ungt fólk velji að flytja úr landi.
Í umræðum á Alþingi vakti Katrín máls á áhyggjum margra af þróun búferlaflutninga þar sem fleiri flyttu frá landinu en til þess. Eðlilegt sé að ungt fólk sæki sér menntun og reynslu utan landsteinanna en Katrín sagði að þingmenn hlytu að kappkosta að gera Ísland að eftirsóknarverður landi til að búa á.
Ungt fólk vilji mennta sig, eignast börn og þak yfir höfuðið. Ekkert bóli hins vegar á tillögum frá ríkisstjórninni um endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna eða fæðingarorlofssjóð auk þess sem tillögur í húsnæðismálum hafi ekki komið fram.
„Þessi mál sem ættu að vera forgangsmál allra flokka á Alþingi í því hvernig við ætlum að byggja upp samfélagið eftir erfið ár þannig að ungt fólk vilji velja sér Ísland til búsetu þau eru ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar en ég skora á háttvirta þingmenn að setja þau á dagskrá,“ sagði Katrín.