Búið er að slökkva eld í smábátnum Brandi VE sem kom upp í hádeginu. Báturinn er gerður út frá Vestmannaeyjum og var einn maður um borð þegar eldurinn kviknaði. Að sögn Sveins Valgarðssonar, skipstjóra Lóðsins VE, sem kom á vettvang, hefur eldurinn verið slökktur og er nú verið að draga bátinn í land. Hann telur líklegt að báturinn sé ónýtur en framendinn er alveg brunninn.
Eins og fyrr segir var einn um borð og var honum bjargað af áhöfninni á Frá VE. Þyrla Landhelgisgæslunnar var jafnframt send á staðinn ásamt björgunarskipinu Þór.
Meðfylgjandi mynd er tekin af Tryggva Sigurðssyni, skipverja á Frá en á henni má sjá hversu mikill eldurinn var. Brandur VE er 8,7 metra langur og 5,8 tonn að stærð. Myndin birtist á vef Aflafrétta.
Að sögn Sveins liggur ekki fyrir hvernig kviknaði í.
Fyrri frétt mbl.is: Alelda bátur við Vestmannaeyjar