ESB verður kosningamál 2017

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir flokk sinn líta svo á að aðildarumsókn Íslands að ESB sé enn í gildi. Það kemur honum því ekki á óvart að Matthias Brinkmann, sendiherra ESB á Íslandi, skuli telja umsóknina mögulega í gildi. Árni Páll telur ESB-umsóknina verða kosningamál 2017.

Fjallað hefur verið um sjónarmið Brinkmanns á mbl.is. Morgunblaðið ræddi við sendiherrann eftir óformlegan blaðamannafund hans í sendiráði ESB í gær.

Gunn­ar Bragi Sveins­son ut­an­rík­is­ráðherra sendi í mars sl. bréf til for­mennsku­rík­is ESB og óskaði þess þar að Ísland yrði ekki leng­ur álitið um­sókn­ar­ríki.

Ekki hefur náðst í Gunnar Braga vegna málsins í dag.

Ríkisstjórnin getur hvenær sem er óskað eftir viðræðum

Árni Páll segir vel hægt að endurvekja aðildarferlið.

„Ég hef alltaf lagt á það áherslu frá því að bréfið var sent að það hefði enga efnislega þýðingu til þess að draga til baka aðildarumsóknina. Það var skrifað og sent beinlínis til þess að sniðganga Alþingi sem hafði gefið umboð til umsóknarinnar. Sú þingsályktun gildir enn. Það er skilningur okkar í Samfylkingunni að hin þjóðréttarlega staða umsóknarinnar væri með þeim hætti að ríkisstjórn Íslands gæti hvenær sem er óskað eftir því að halda þessu ferli áfram, á grundvelli þeirrar þingsályktunar og þess umboðs sem þegar hefur verið veitt. Það sem við höfum síðan gert er að lýsa þeirri stefnu okkar að leggja beri í dóm þjóðarinnar hvort þráðurinn verður tekinn upp að nýju. Að fengnu því samþykki þjóðarinnar er alveg ótvírætt að það á að vera mögulegt að halda málinu áfram,“ segir Árni Páll.

Spurður hversu of­ar­lega þetta mál verði á baugi hjá Sam­fylk­ing­unni í kosn­inga­bar­átt­unni 2017 seg­ir Árni Páll að all­ir stjórn­ar­and­stöðuflokk­arn­ir hafi staðið saman að þings­álykt­un­ar­til­lögu í vor, í kjölfar þess að utanríkisráðherra sendi bréfið, um að fram fari þjóðar­at­kvæðagreiðsla um hvort þráður­inn skuli tek­inn upp að nýju.

„Ég á ekki von á öðru en að þeir flokk­ar verði áfram til­bún­ir til að standa að því að leggja þetta mál í dóm þjóðar­inn­ar,“ segir Árni Páll.

Annað svar frá ESB en búist var við

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, fjallar um stöðu ESB-málsins á vef sínum í dag. Hann vitnar þar til einkasamtala við ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

„Þegar utanríkisráðherra kynnti í ríkisstjórn bréf sitt til ESB sl. vetur kom jafnframt fram, að samið hefði verið fyrirfram um svarbréf, sem efnislega mundi hljóða á þann veg, að það yrði málefni framkvæmdastjórnar ESB í framtíðinni að ákveða, hvort hún teldi aðildarumsóknina virka eða ekki. Þetta væntanlega svar var auðvitað algerlega ófullnægjandi en engu að síður samþykkt af ráðherrum beggja flokka.

Svarið sem kom var hins vegar ekki hið umsamda svar heldur enn loðnara. Þetta hafa einstakir ráðherrar Sjálfstæðisflokks staðfest í einkasamtölum,“ skrifar Styrmir.

Hann telur ummæli sendiherra ESB staðfesta „gagnrýni þeirra, sem hafa haldið því fram, að ríkisstjórnin hafi klúðrað afturköllun aðildarumsóknar Íslands að ESB og skilið eftir beina og breiða braut fyrir nýja aðildarsinnaða ríkisstjórn til að halda aðildarviðræðum áfram eins og ekkert hafi í skorizt“.

Ólafur Ragnar brjóstvörn sjálfstæðis

Þá skrifar Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011, á vef sinn að „hátíðleg loforð núverandi stjórnarflokka um afdráttarlausa afturköllun ESB-umsóknarinnar virðast marklaus og í uppnámi samkvæmt yfirlýsingum sendiherra ESB“.

„Forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, heldur uppi merki sjálfstæðis í utanríkismálum Íslendinga,“ skrifar Jón meðal annars. 

„Mikilvægt er að ríkisstjórnin geri hreint fyrir sínum dyrum með skriflegum staðfestum hætti að umsóknin hafi verið afturkölluð og að skrifleg staðfesting komi frá ESB um að umsóknin hafi ferið felld úr gildi og endursend til Íslands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert