Konur aðeins 30% viðmælenda

Viðmælendur fjölmiðla eru enn í miklum meirihluta karlmenn. Konur eru …
Viðmælendur fjölmiðla eru enn í miklum meirihluta karlmenn. Konur eru aðeins 30% viðmælenda í fréttum og viðtalsþáttum. Fréttakonur eru einnig í minnihluta, en fjöldi þeirra hefur þó farið úr 30% árið 2001 upp í 40% í ár.

Hlutur kvenna sem viðmælendur fjölmiðla hefur lítið breyst frá því að málið var skoðað fyrir 15 árum, samkvæmt nýrri úttekt sem kynnt var á jafnréttisþingi í dag og yfir tímabilið 1. september 2014 – 31. ágúst 2015. Karlar voru um 70% viðmælenda í fréttum RÚV, Stöðvar 2 og Bylgjunnar á móti um 30% kvenna.

Fyrirtækið Creditinfo vann úttektina fyrir velferðarráðuneytið og tók hún til greiningar á viðmælendum í fréttum og völdum umræðuþáttum Ríkisútvarpsins (RÚV) og fjölmiðlafyrirtækisins 365.

Þeir fréttatímar og þættir sem voru skoðaðir hjá RÚV voru morgun-, hádegis- og kvöldfréttir RÚV til viðbótar við kvöldsjónvarpsfréttir og tíufréttir. Þættirnir voru morgunþættir Rásar 2, Samfélagið á Rás 1, Spegillinn á samtengdum rásum og Kastljós Sjónvarpsins. 

Hjá 365 voru morgunfréttir á Bylgjunni, hádegisfréttir og kvöldfréttir Stöðvar 2 skoðaðar, til viðbótar við Í bítið og Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og Ísland í dag á Stöð 2.

Í heildina voru skoðuð 11.590 viðtöl við 15.043 viðmælendur. Í sjónvarpsfréttum var hlutfall kvenna 30,7% til 32,6% , en hlutfallið í útvarpsfréttum var aðeins 22,9% upp í 29,8%.

Rósa Guðrún Erlingsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, kynnti niðurstöður greiningarinnar og benti þar meðal annars á að ástandið hefði lítið breyst frá árinu 2000 þegar sambærileg könnun var gerð. Konum sem viðmælendum fjölmiðla hefði afar lítið fjölgað. 

Í skýrslu velferðarráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála árin 2013-2015 sem kynnt var í dag er fjallað um birtingarmyndir kynjanna í fjölmiðlum, hve mikilvægt sé að þeir sjálfir skoði hvaða myndir þeir dragi upp af konum og að þeir auki fjölbreytni til að endurspegla á réttari máta samfélagið og heilbrigðar fyrirmyndir fyrir bæði ungar konur og karla. Þar segir m.a. að miðað við þá mynd af konum í fjölmiðlum í dag séu miklar líkur á að vegna sterkra langtímaáhrifa fjölmiðla hafi staðalmyndir af kynjunum verið festar í sessi í fjölmiðlum: „Það er því ekki einungis staðreynd að það heyrist í færri konum en körlum heldur sjást þær sjaldnar og birtingarmynd þeirra er ólík karlanna“ segir m.a. í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert