„Vinnan komin í algerar ógöngur“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

„Merkilegt nokk virðist sem sú vinna sé komin í algerar ógöngur, alla vega er næsta ljóst að ekki verður farið í breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningu nema einhvers konar kraftaverk verði og þingmenn verði jafnvel í vinnunni fram að áramótum, því að tíminn er búinn."

Þetta sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag þar sem hún vísaði til vinnu þerpólitískrar nefndar um stjórnarskrárbreytingar en rætt hefur verið um að þjóðaratkvæði um breytingarnar gæti farið fram samhliða forsetakosningunum næsta vor. Birgitta ítrekaði gagnrýni sem hún setti fram í haust vegna ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að óheppilegt væri að þessar tvær kosningar færu fram samhliða.

„Þarna hefur forseti lýðveldisins bein afskipti af störfum þingsins í jafn veigamiklu máli og þessu. Mér finnst það mjög alvarlegt og furðulegt að við þingmenn látum það óátalið,“ sagði Birgitta og bætti við. „Ég hef ekki heyrt einn einasta þingmann meiri hlutans gagnrýna þá aðför að lýðræðinu, engan. Það hryggir mig. Ég verð að segja að mér finnst það pínulítið aumt. Við eigum að standa með þingræðinu. Við þingmenn eigum að standa með þingræðinu og það gerum við ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert