„Hvað gerir Gunnar Bragi núna þegar sendiherrann gefur til kynna að hann og forsætisráðherra séu ómerkingar? Báðir hafa sagt umsóknina afturkallaða,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni.
Vísar hann þar til þeirra ummæla Matthias Brinkmann, yfirmanns sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi, í Morgunblaðinu í gær að hugsanlegt sé að umsóknin um inngöngu í sambandið sé enn í fullu gildi en forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað sagt að svo sé ekki.
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ESB-sendiherra á Íslandi hlutast til um íslensk innanlandsmál. Forverar Brinkmanns hafa ekki fengið umvandanir af hálfu utanríkisráðuneytisins,“ segir Björn og veltir fyrir sér hvernig Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra bregðist við.