Hvenær megum við búast við sanngjörnum niðurstöðum í kynferðisbrotamálum?
Þessari spurningu varpar hópurinn WTF Dómskerfið fram á síðu Facebook viðburðar þar sem boðað er til mótmæla við Héraðsdóm Reykjavíkur klukkan 17. í dag.
Í viðburðarlýsingunni segir að íslenskir dómstólar séu ófærir um að sinna starfi sínu við að tryggja réttlæti á Íslandi, niðurstöður þeirra í nauðgunarmálum hafi verið fáránlegar um árabil og virðist aldrei skána.
„Af aðeins 6 sakfellingum í héraði frá því 1. janúar voru 3 útlendingar og einn hommi. Skilaboðin eru þau að íslenskir, gagnkynhneigðir menn mega nauðga konum eins og þá lystir. Hvernig eiga borgarar að treysta slíkum dómstólum í lýðveldi?“
Setur hópurinn fram fjórar kröfur: Að dómarar fari eftir lögum um barnavernd og kynferðisofbeldi, að jafnræði sé beitt við framfylgd laga, að nauðgarar séu dæmdir og að dómarar hætti að leita hverrar glufu til að sýkna þá og loks krefst hópurinn fleiri kvendómara.
„Ef dómstólar neita að bæta ráð sitt krefjumst við afsagnar dómara landsins og fullkominnar endurnýjunar í kerfinu. Lögin eru ekki vandamálið. Dómararnir og kerfið sjálft eru vandamálið.“
Sem áður segir fara mótmælin fram kl. 17 í dag en hópurinn hvetur jafnframt til hliðstæðra mótmæla við héraðsdómshús annars staðar um landið. Enn sem komið er hafa 165 staðfest þátttöku sína og hátt í 500 manns merkt við að þeir hafi áhuga á viðburðinum.