30% dýrara í Straumsvík

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, gerði kjaradeilu starfsmanna álversins í Straumsvík að umræðuefni á Facebook-síðu sinni nýverið. Sagði hann þar deiluna einna helst snúast um raforkusamning Rio Tinto Alcan við Landsvirkjun en ekki verktakavæðingu starfsmanna álversins.

„Málið að mínum dómi lýtur að nýgerðum raforkusamningi sem forsvarsmenn Alcan gerðu við Landsvirkjun fyrir skemmstu en með þeim samningi versnaði rekstrargrundvöllur fyrirtækisins alverulega. Málið er að álverksmiðjur í eigu Rio Tinto Alcan í Kanada sömdu nýlega um nýtt raforkuverð við Hydro Québec í Kanada. Þessi samningur lækkaði orkuverðið verulega og tengdi það við heimsmarkaðsverð á áli. Eftir þennan samning kostar raforkan til þess að framleiða eitt tonn af áli í Kanada, 350 Bandaríkjadali,“ segir Vilhjálmur í færslu sinni.

Bendir hann jafnframt á að raforkan sem þarf til að framleiða eitt tonn af áli í Straumsvík kostar hins vegar 500 Bandaríkjadali. Er því raforka til álframleiðslu 30% ódýrari í Kanada fyrir Rio Tinto Alcan en í Straumsvík, að sögn Vilhjálms.

„Alcan í Straumsvík er að framleiða um 200 þúsund tonn af áli á ári sem þýðir að Alcan greiðir 13,3 milljarða fyrir raforkuna á ári, samkvæmt nýgerðum samningi við Landsvirkjun. En ef þeir væru hins vegar með sömu kjör og standa til boða í Kanada væri raforkukostnaðurinn 9,2 milljarðar. Hér munar hvorki meira né minna en 4,1 milljarði sem Alcan þarf að greiða meira en raforkuverðið er í Kanada. Takið eftir þessir 4,1 milljarður er jafn mikið og allur launakostnaður á síðasta ári!

Þetta er hið raunverulega vandamál, Landsvirkjun er að slátra mjólkurkúnni sinni með því að bjóða ekki samkeppnishæft verð og býðst erlendis og starfsmenn fyrirtækisins eru gerðir af blórabögglum.“

Seinast var fundað í kjaradeilu starfsmanna álversins í Straumsvík í dag og lauk fundinum án teljandi niðurstöðu. Næst verður fundað á mánudag en verkfall hefst að óbreyttu í Straumsvík 2. desember.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka