Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, sagði að á hana hefðu runnið tvær grímur þegar Eygló Harðardóttir velferðarráðherra hefði rætt takmörkun tjáningarfrelsisins á Jafnréttisþingi á þriðjudaginn.
Sagði hún að Píratar hefðu áður bent á að það að stjórna internetinu væri eins og að smala köttum, ekki væri hægt að stjórna því eins og fólki. Eina vopnið gegn hatursorðræðu á internetinu væri að ræða hana meira og uppræta með tjáningu. Nefndi hún átak Evrópuráðsins No Hate Speech Movement.
„Með því að fræða og tala um hlutina getum við lært meira og þá minnkað þá tjáningu sem er óæskileg,“ sagði Ásta Guðrún. Sagðist hún sammála því að sum tjáning væri frekar ljót. „En við þurfum að ræða þetta, ekki reyna að þagga þetta.“
Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði umræðuna í samfélaginu að undanförnu varla hafa farið framhjá neinum. Meðal annars hafi verið rætt um kynferðisbrot, hlutverk lögmanna, störf dómstóla, hvað sé satt og hvað sé ósátt, efnt til mótmæla, stór orð látin falla í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
„Sjálfri finnst mér betra að við sem samfélag séum á þeim stað þar sem við tölum um óþægilega hluti. Þeir fara ekki þó við tölum ekki um þá,“ sagði Heiða Kristín. Sagðist hún ekki vilja sjá samfélagið fara aftur á þann stað þar sem kynferðisofbeldi er þaggað niður og geri hún kröfu á að horfst sé í augu við álitamálin og hvort það sé eitthvað í löggjöfinni sem ýtir undir að ofbeldi fái að þrífast.
Kallaði hún eftir því að settur verði saman hópur fólks úr öllum flokkum, sérfræðingar og þeir sem vinna að málaflokknum. „Leiði þessi vinna fram tillögur að breytingum er okkur skylt að breyta,“ sagði Heiða Kristín.
Frétt mbl.is: Ræða þurfi takmörkun tjáningarfrelsis