Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp þar sem gengistryggð erlend lán verða aftur heimiluð.
Er með því brugðist við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), sem telur að bann við gengistryggðum lánum stangist á við reglur um frjálst flæði fjármagns.
Samkvæmt frumvarpinu verða þó þríþættar takmarkanir á lánveitingum. Hver einstaklingur eða aðili getur tekið lán ef hann hefur nægilegar tekjur í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til að standast greiðslumat, eða hefur staðist greiðslumat þar sem gert er ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum, eða hefur staðist greiðslumat og leggur fram viðeigandi fjárhagslegar tryggingar sem eyða gjaldeyrisáhættu hans vegna lánsins á lánstímanum.