Embætti sérstaks saksóknara hefur framsent bréf embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins til Samherja, þar sem fram kemur að skattrannsóknarstjóri telur ekki efni til að hefja rannsókn á skattskilum Samherja og tengdra aðila.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að með bréfi skattrannsóknarstjóra væri loks fengin niðurstaða í hinu svokallaða Seðlabankamáli og ljóst orðið að ásakanir Seðlabankans í garð Samherja og tengdra aðila hefðu verið tilhæfulausar með öllu og úr lausu lofti gripnar.
„Fyrir mér er þetta niðurstaða í þessu svokallaða Seðlabankamáli. Það er sama frá hvaða sjónarhorni þetta stórskaðlega og langvinna mál er skoðað, það fæst alltaf sama niðurstaða. Þetta bréf skattrannsóknarstjóra er bara enn ein staðfesting á því að ásakanir Seðlabankans í okkar garð og fyrirtækja okkar voru algjörlega tilhæfulausar og úr lausu lofti gripnar,“ sagði Þorsteinn Már.