Lagt er til að framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar aukist um 370 milljónir króna á næsta ári samkvæmt nefndaráliti fjárlaganefndar við fjáraukalagafrumvarp sem lagt var fram á Alþingi í dag. Með þessu er vikið frá aðhaldskröfu á kirkjuna sem samþykkt var árið 2009 í kjölfar bankahrunsins.
Forsendur þessarar breytingar eru um leið að endurskoða kirkjujarðasamkomulagið frá 1997, en það felur meðal annars í sér endurskoðun allra fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju, þ.m.t. hvað varðar sóknargjöld, jöfnunarsjóð sókna, framlög til kirkjumálasjóðs og Kristnisjóðs. Kjarninn sagði fyrst frá málinu.
Kemur fram í skýringum með fjáraukalagafrumvarpinu að markmiðið sé um verulega einföldun þessara samskipta og hagræðingu að leiðarljósi. Í annan stað mun ríkið í framangreindum samningaviðræðum leggja til grundvallar ramma fjárlaga eins og hann birtist í áætlun í ríkisfjármálum til næstu ára og því aðhaldi og forgangsröðun sem þar þarf að eiga sér stað. Í þriðja lagi er ætlunin að framangreindri endurskoðun á fjárhagslegum samskiptum ríkisins og þjóðkirkjunnar verði lokið fyrir lok febrúar 2016.