Allt er á kafi í snjó á höfuðborgarsvæðinu eftir mikla snjókomu í nótt. Samkvæmt Vegagerðinni eru allar stofnæðar borgarinnar færar, en enn eiga sveitarfélög eftir að moka megnið af íbúðagötum.
Samkvæmt upplýsingum frá Halldóri Þórhallssyni, umsjónarmanni snjóruðninga í Reykjavík, er ástandið talsvert verra en í gærmorgun og segir hann allavega 10-15 sentímetra jafnfallinn snjó. Vel gangi þó að ryðja helstu stofleiðir og strætógötur, en að ekki verði byrjað að fara í húsagötur fyrr en upp úr átta.
„Það er ófærð í húsagötum núna,“ segir hann, en reiknað er með því að ruðningi ljúki ekki fyrr en seinni partinn í dag. Aðspurður hvort vegfarendur eigi að hafa eitthvað í huga áður en haldið er út segir hann að það sé fyrst og fremst að vera þolinmóðir. „Fólk þarf að gefa sér tíma í dag,“ segir hann.
Á vegum Reykjavíkurborgar eru nú 10 tæki úti að moka, en klukkan átta verða þau orðin tæplega 20 talsins að sögn Halldórs.