Unga fólkið að flytja frá Íslandi

Mikið er rætt um búferlaflutninga.
Mikið er rætt um búferlaflutninga. mbl.is/Golli

Ungt fólk er í meirihluta þeirra íslensku ríkisborgara sem flutt hafa frá landinu í ár. Þetta segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, en hann hefur greint gögn Hagstofunnar um búferlaflutninga á fyrstu 9 mánuðum ársins.

Tilefnið er ný greining Hagstofunnar sem fjallað hefur verið um á mbl.is.

Í umfjöllun Morgunblaðsins 11. nóvember um búferlaflutninga var haft eftir Ásgeiri að rannsóknir bendi til að það sé einkum ungt fólk sem hleypi heimdraganum og leiti betri kjara erlendis.

„Ísland hefur lengið búið við mjög neikvæðan flutningsjöfnuð ungs fólks,“ segir Ásgeir og vísar til nýbirtra talna Hagstofunnar um aldursdreifingu búferlaflutninga. Greindi hann gögn sem Morgunblaðið fékk afhent frá Hagstofunni í gær, en þau eru hluti nýrrar rannsóknar Hagstofunnar. Niðurstöðurnar eru hér sýndar á tveimur gröfum.

Óvenjuleg þróun á þessu ári

„Ef litið er til síðustu samdráttarskeiða í íslensku efnahagslífi þá hafa þau öll leitt til þess að ungt fólk hefur hleypt heimdraganum og leitað tækifæra annars staðar. Það sem er óvenjulegt er að við skulum sjá fjölgun í hópi brottfluttra á sama tíma og það er uppsveifla í efnahagslífinu og mjög lítið atvinnuleysi.

Að öðru leyti sýna tölur Hagstofunnar að eðli búferlaflutninga er svipað og áður; það er ungt fólk sem er nú að flytja af landinu þrátt fyrir vaxandi hagsæld heima fyrir.
Samhengið við hagsveifluna sést vel ef innlendur flutningsjöfnuður er skoðaður aftur í tímann og fólkinu er skipt í fjóra aldurshópa, þau sem eru á aldrinum0-20 ára, 20-35 ára, 35-65 og síðan þau sem eru eldri en 65 ára,“ segir Ásgeirs og vísar til grafs sem hér er endurgert.

„Atvinnuástand hefur haft ráðandi áhrif á búferlaflutninga til og frá landinu í gegnum tíðina og hefur hallinn einkum snúið að fólki yngra en 35 ára,“ segir Ásgeir.

Hér má sjá greiningu Ásgeirs Jónssonar á búferlaflutningum íslenskra ríkisborgara …
Hér má sjá greiningu Ásgeirs Jónssonar á búferlaflutningum íslenskra ríkisborgara á tímabilinu 1986-2015 eftir aldri fólksins. Teikning/Ásgeir Jónsson
Hér má sjá greiningu Ásgeirs Jónssonar á búferlaflutningum íslenskra ríkisborgara …
Hér má sjá greiningu Ásgeirs Jónssonar á búferlaflutningum íslenskra ríkisborgara í ár eftir aldri fólksins. Teikning/Ásgeir Jónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert