Ísland standi við stóru orðin

Frá göngu Global Climate March í Berlín.
Frá göngu Global Climate March í Berlín. AFP

Hópur umhverfisverndarsamtaka stendur fyrir mótmælagöngu í dag. Gangan er hluti af alþjóðlegri hreyfingu Global Climate March í tilefni af loftslagsráðstefnunni í París.

Göngur undir því nafni hafa verið og verða farnar í dag í borgum um allan heim en þegar hafa tugir þúsunda komið á götur ástralskra borga og krafist aðgerða í umhverfismálum. Búist er við hátt í þúsund manns í göngunni hér sem verður farin frá söluturninum Drekanum, „Drekasvæðinu,“ á horni Kárastígs, Frakkastígs og Njálsgötu, klukkan 14.

Frá göngunni í Nýju Delhí
Frá göngunni í Nýju Delhí AFP

Þess er krafist að Ísland skuldbindi sig, óháð stefnu Evrópusambandsins, til þess að minnka losun sína um a.m.k. 40%. Ísland stefni enn fremur að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 líkt og önnur lönd, s.s. Noregur, hafa gert og loks að strax verði hætt við öll áform um olíuleit og -vinnslu á Drekasvæðinu.

Hildur Knútsdóttir er ein skipuleggjenda göngunnar en hún segir ýmislegt vanta upp á stefnu stjórnvalda svo duga megi. „Ef maður skoðar landsframlag Íslands þá er t.d. talað um að taka þátt í 40% markmiði Evrópusambandsins með fyrirvara um að Ísland taki á sig 'sanngjarnan skerf' af því hlutfalli þar sem Ísland sé lítið ríki og hvert einstakt verkefni hafi mikil áhrif efnahagslega. Því höldum við að Ísland sé að reyna að sleppa svolítið billega frá þessu. Við viljum sjá svipaða stefnu og í Noregi þar sem Norðmenn segjast taka þátt í stefnu ESB [um minnkun losunar] en gangi samningar ekki eftir hjá ESB ætli Norðmenn óháð því að draga sína losun saman um 40% og stefna að kolefnishlutleysi árið 2050. Þetta hefur Ísland ekki gert.“

Hildur segir tímann til pólitískra vangaveltna og umræða í raun liðinn. Loftslagið þoli enga frekari bið. „Staðan er orðin það slæm að við verðum að taka í taumana.“

Frá göngunni í Osló.
Frá göngunni í Osló. AFP

Standi við stóru orðin

Ísland hefur þá ímynd að vera hreint land með hreina orku en Hildur segir allan trúverðugleika landsins í umhverfismálum vera fyrir bí ef Íslendingar ætli sér nú að verða n.k. olíuþjóð. Ljóst sé að ef verða megi af því að takmarka hnattræna hlýnun um 2°c eða minna þá verði meirihluti þeirra olíulinda sem þekktar séu að liggja áfram í jörðu. Því verði að hætta við olíuleit og -vinnslu á Drekasvæðinu.

„Það er mjög skrítin stefna að ætla að halda hlýnuninni undir 2°c en vera á sama tíma að leita að nýrri olíu. Það er alveg ljóst að það er ekki hægt að brenna þeirri olíu sem er kannski þarna,“ sagði Hildur.

Gangan í Dhaka í Bangladesh
Gangan í Dhaka í Bangladesh AFP

Aðstoð við þróunarlönd lykilatriði

Hildur segir eitt aðalatriðið á loftslagsráðstefnunni í París vera aðstoð iðnríkjanna við þróunarlönd. „Það er minn skilningur að þetta sé stórt bitbein á þeim undirbúningsfundum sem hafa verið haldnir fyrir ráðstefnuna. Iðnríkin þurfa að styðja þróunarríkin í því að vinna orku á hreinan máta því annars pissa þau í skó okkar allra ef þau fara að brenna mun meira jarðefnaeldsneyti.“

Margt kemur til en ljóst er að þróunarlönd munu verða verst úti í þeim loftslagsbreytingum sem spáð er. Þá er um ákveðið sögulegt réttlætismál að ræða þar sem iðnríkin bera ábyrgðina á bróðurparti þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem þegar hefur átt sér stað og eitthvað þurfi að koma til svo forsvaranlegt sé að þróunarlöndin fylgi stefnu um minnkaða losun. Bæði þurfi tækni- og fjárstuðning þeim til handa svo þau geti byggt upp þá innviði sem þarf til þess að bregðast við þeirri loftslagsvá sem liggur fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert