Skila sér í litlum mæli í miðborgina

Koma skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur hefur aukist mikið undanfarin ár. Ferðamenn …
Koma skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur hefur aukist mikið undanfarin ár. Ferðamenn á slíkum skipum skila sér þó lítið í verslanir í miðbænum. mbl.is/ Eggert

Farþegar sem koma til Reykjavíkur með skemmtiferðaskipum skila sér í mjög litlum mæli í verslanir í miðborginni þó reynt hafi verið að lengja afgreiðslutíma þegar von er á mörgum farþegum til borgarinnar.

Í stað þess að versla í miðbænum halda farþegar í skipulagðar rútuferðir eða afþreyingaferðir út fyrir Reykjavík.  Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu þar sem greind er staða og þróun verslunar og þjónustu Reykjavík, en það var Rannsóknasetur verslunarinnar sem skrifaði skýrsluna að beiðni Reykjavíkurborgar.

Fara helst í skoðunarferðir út fyrir Reykjavík

Í skýrslunni er vitnað til þess að rekstraraðilar í miðborginni, sem selji varning ætluðum erlendum ferðamönnum, segi farþega skemmtiferðaskipa mjög lítið skila sér í miðbæinn. „Svo virtist sem flestir færu í rútum í skipulegar skoðunarferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið. Sem dæmi var nefnt að reynt hefði verið að breyta afgreiðslutíma verslana þegar von væri á fjölmennum hópum úr skemmtiferðaskipum, en árangurinn væri ekki teljandi,“ segir í skýrslunni.

Um 105 þúsund manns komu til Reykjavíkur með skemmtiferðaskipum árið 2014 með 92 skipum. Var það aukning um 14% milli ára. Umsjónaraðilar með móttöku þessara ferðamanna staðfestu einnig að flestir farþeganna velji rútuferðir á vinsæla ferðamannastaði fyrir utan Reykjavík.

Samræmt átak til að beina farþegum í miðbæinn

Farið er yfir tilraunir Kringlunnar við að bjóða ferðamönnum upp á fríar reglubundnar strætisvagnaferðir úr miðborginni í Kringluna. Það hafi í fyrstu ekki skilað miklum árangri, en sumarið 2015 hafi stoppustöðvum verið breytt og upplýsingar og markaðsstarf aukið sem hafi skilað sér í 5.500 farþegum milli maí og ágúst. Það er 52% aukning frá árinu áður.

Segja skýrsluhöfundar það æskilegt að koma á samræmdu átaki við að beina farþegum skemmtiferðaskipa í verslanir borgarinnar til að auka verslun þeirra í miðbænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert