Fákeppni kostar neytendur milljarða

Niðurstöður markaðsrannsóknar Samkeppniseftirlitsins á eldsneytismarkaði bendir til þess að samkeppni sé verulega skert á mikilvægum hluta hans. Þörf er á aðgerðum til að bæta hag almennings hvað þetta varðar, en samkvæmt niðurstöðunum greiddu neytendur 4-4,5 milljörðum of mikið fyrir bifreiðaeldsneyti í smásölu árið 2014.

Þetta kemur fram í tilkynningu um skýrslu um frumniðurstöður rannsóknarinnar.

Þar segir m.a. að verð á bifreiðaeldsneyti sé hærra hér á landi en í flestum öðrum vestrænum ríkjum og að munurinn sé það mikill að hann verður ekki útskýrður með smæð markaðarins eða auknum kostnaði vegna sölu eldsneytisins hérlendis. „Þá er álagning olíufélaganna á bifreiðaeldsneyti það mikil að hún gefur vísbendingu um takmarkaða samkeppni,“ segir í tilkynningunni.

„Aukin samkeppni myndi leysa úr læðingi krafta sem koma myndu samfélaginu til góða, t.d. með hagkvæmari rekstri olíufélaganna sem stuðlar að lægra verði til neytenda. Til að svo geti orðið þarf m.a. að tryggja að nýir keppinautar geti haslað sér völl á markaðnum. Reynslan erlendis frá sýnir að sjálfstæðir smásalar á eldsneyti (t.d. stórmarkaðir) geta veitt hefðbundnum olíufélögum mikið samkeppnislegt aðhald. Miklar aðgangshindranir eru hins vegar að eldsneytismarkaðnum hér á landi og því þarf að breyta.“

Hér má finna frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka