Alls hafa 1.278 hross verið flutt til 18 landa það sem af er ári en allt árið 2014 voru 1.236 hross flutt út. Árið stefnir í að vera yfir meðaltali síðustu tíu ára. Þetta kemur fram í tölum frá bændasamtökunum.
Langflest hross hafa farið til Þýskalands eða 478 en fara þarf fara aftur til ársins 1998 til að finna álíka tölur. Svíar hafa keypt næstmest af íslenskum hestum eða 219 og Danir hafa keypt 152 íslenska hesta. Tvö íslensk hross hafa verið flutt út til Kanada, eitt til Lúxemborgar, 15 til Færeyja, 10 til Grænlands og 31 til Bandaríkjanna. Stefnt er að því að fara með hross til Bandaríkjanna fyrir jól.
„Markaðurinn í Bandaríkjunum gengur rólega en hann mallar í rólegheitum. Við vorum að vona fyrir tíu til fimmtán árum að hann gæti orðið stór en hann hefur verið daufur undanfarin ár. Það eru, finnst mér, merki þess að hann sé að vakna á ný,“ segir Hulda Gústafsdóttir hjá Hestviti sem staðið hefur í útflutningi hrossa síðan 1989.
Hún segir að salan hafi verið mest í dýrum keppnishestum og að markaðurinn hafi breyst töluvert undanfarin ár.
„Í kringum 1990 komu kaupmenn og keyptu 30-40 hesta í einni ferð. Þá hafði maður varla undan. En þá var markaðurinn allt öðruvísi, þá komu heildsalar en núna eru hestarnir keyptir yfir netið og fólk er mikið að gera þetta sjálft. Netið hefur breytt kauphegðun fólks mikið í þessum geira sem öðrum.“