„Framkoma þessara vinaþjóða í okkar garð er orðin óþolandi í viðræðum um skiptingu á deilistofnun. Mest sárnar manni að Færeyingar skuli viðhafa slíka framkomu gagnvart okkur að ekki er hægt að líkja því við annað en rýtingsstungu í bakið.“
Þetta segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, á Facebook-síðu sinni í dag í ljósi þess að ekki hafa náðst samningar um skiptingu makrílkvótans á næsta ári nema á milli Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja. Færeyingar voru lengi vel í samfloti með Íslendingum í makríldeilunni við Evrópusambandið og Norðmenn en sömdu síðan á síðasta ári um makrílinn án aðkomu Íslands.
Jón bendir á að framundan séu tvíhliða viðræður við Færeyinga meðal annars um aflaheimildir í íslenskri lögsögu. „Ég sé ekki annað útspil en að segja upp samkomulagi við Færeyinga og Norðmenn vegna aflaheimilda hér við land og hefja tvíhliða viðræður við Grænlendinga m.a. vegna markrílsins.“ Bendir hann ennfremur á að viðskiptabannið á Rússa lendi harðar á Íslandi en á Evrópusambandinu, Noregi eða Færeyum.
„Í ljósi þess að ekkert tillit er tekið til þessara miklu hagsmuna í viðræðum m.a. við ESB hljótum við að þurfa að opna á endurskoðun í afstöðu okkar í því máli. Vissulega er um mikilvægt prinsippmál að ræða, en það má öllum vera ljóst að ekkert ríki ESB myndi sætta sig við að þurfa að færa slíkar fórnir án þess að "vinaþjóðir" þess gæfu því gaum og tækju til þess tillit á öðrum vettvangi.“