„Það sem ekki drepur mann, það herðir mann,“ segir Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna, spurður út í aðalfund félagsins sem fór fram í kvöld. Uppbygging á Hlíðarendareitnum var rædd sem og fyrirhuguð málaferli Reykjavíkurborgar gegn ríkinu í ljósi ákvörðunar innanríkisráðherra að hafna því að loka flugbraut 06/24, svonefndri neyðarbraut.
Brynjar segir í samtali við mbl.is, að Valsmenn muni fylgjast grannt með dómsmálinu sem borgin ætlar að höfða gegn ríkinu, en greint var frá því fyrr í þessum mánuði að borgarlögmanni hefði verið falið stefna ríkinu vegna meintra vanefnda á samningum sem kveða á um lokun neyðarflugbrautarinnar (NA/SV) á Reykjavíkurflugvelli.
Meirihlutinn í borgarráði lagði fram bókun þess efnis á fundi borgarráðs 19. nóvember eftir að svarbréf innanríkisráðherra til borgarinnar frá 3. nóvember sl., varðandi málefni flugvallarins, var kynnt. Í bréfi Ólafar Nordal innanríkisráðherra kom fram að hún ætlaði ekki að verða við kröfum borgarstjóra um að loka svonefndri neyðarflugbraut né heldur að breyta skipulagsreglum að svo stöddu.
Málið hefur valdið Valsmönnum miklu tjóni. Brynjar segir hins vegar að félagið muni standa þetta af sér. „Við höfum auðvitað gríðarlegar áhyggjur af þessu; þetta eru gríðarleg vonbrigði en við erum búnir að taka þennan slag í 10 ár og við stöndum þetta af okkur. Við erum komnir þetta langt,“ segir hann. Aðspurður segir hann að félagið muni fylgjast grannt með málinu sem borgin ætlar að höfða, en talið er að stefnan verði lögð fram í vikunni.
Hann segir ennfremur að ráðist verði í nýjar framkvæmdir á svæðinu í byrjun næsta árs. „Við erum byrjaðir að hanna reit sem er fyrir utan flugvallarsvæðið,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is. Allar teikningar liggja fyrir og stefnt er að því að framkvæmdir muni hefjast fljótlega á nýju ári. Um er að ræða svæði sem nefnist Hlíðarendi 4, sem er nær Öskjuhlíð heldur flugvallarsvæðið umdeilda.
„Við erum að fara byggja fjörutíu litlar íbúðir; tveggja og þriggja herbergja,“ segir Brynjar sem á von á því að uppbyggingin muni taka um það bil 18 mánuði.