Rúmlega 300 stjórnendur úr atvinnulífinu skora í dag á Alþingi að lækka tryggingagjaldið í áskorun sem birtist í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í dag.
Í áskoruninni segir að það gangi vel í atvinnulífinu á mörgum sviðum og atvinnuleysi hafi minnkað hratt en þrátt fyrir það sé tryggingagjald sem rennur m.a. til greiðslu atvinnuleysisbóta enn í hæstu hæðum. Segir að árlegt gjald sé um 20 til 25 milljörðum króna hærra en það ætti að vera.
„Engin áform virðast um að lækka tryggingagjaldið árið 2016 þrátt fyrir að atvinnuleysi sé hverfandi. Það hefur verið 3% síðustu 12 mánuði og fer enn minnkandi, en tryggingagjaldið er svipað og þegar atvinnuleysi var 8-9% á árunum 2009-2010. Þessu mótmæla stjórnendur fjölbreyttra fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum út um allt land og hvetja Alþingi til að láta verkin tala og lækka gjaldið. Fram hefur ítrekað komið á undanförnum tveimur árum hjá fulltrúum allra flokka að rétt væri að lækka gjaldið,“ segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.