Aðeins eitt tilboð barst í útboði Neytendasamtakanna á rafmagnsverði fyrir félagsmenn sína; það var frá Orkusölunni, dótturfyrirtæki RARIK, og hljóðaði upp á 0,65% afslátt frá gildandi verðskrá.
Þetta kemur fram í frétt á vef Neytendasamtakanna, þar sem fjallað er um fákeppni á raforkumarkaði.
Tilgangur útboðsins var tvíþættur; að reyna að fá hagstæðara verð á rafmagni fyrir félagsmenn Neytendasamtakanna og að ýta undir samkeppni á raforkumarkaði.
„Nú liggja niðurstöður útboðsins fyrir og aðeins eitt fyrirtæki sendi inn tilboð, en það var Orkusalan sem er dótturfyrirtæki RARIK sem bauð 0,65% afslátt frá gildandi verðskrá sinni. Ljóst er að hér er um svo takmarkaðan ávinning að ræða fyrir neytendur að ákveðið var að hafna þessu tilboði,“ segir í fréttinni.
Neytendasamtökin hafa vakið athygli Samkeppniseftirlitsins á niðurstöðum útboðsins, en í fréttinni á vef samtakanna segir að munurinn á hæsta og lægsta rafmagnsverði sé aðeins 4,5%.