Biskup þjóðkirkjunnar telur að eina endurskoðunin á kirkjujarðasamningi ríkis og kirkju sem sé möguleg sé um fjölda embætta sem ríkið greiðir fyrir. Samningaviðræður um endurskoðun fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju munu að líkindum hefjast von bráðar.
Í frumvarpi að fjáraukalögum er gert ráð fyrir að 370 milljóna útgjaldaaukning ríkisins til þjóðkirkjunnar sé háð því að öll fjárhagsleg samskiti ríkis og kirkju verði endurskoðun. Henni á að ljúka fyrir lok febrúar á næsta ári og er markmiðið að einfalda samskiptin með hagræðingu að leiðarljósi.
Agnes Sigurðardóttir, biskup þjóðkirkjunnar, segist ekki hafa heyrt neina dagsetningu um hvenær viðræðurnar við ríkið eigi að hefjast en nefnd sem kirkjuþing kaus á dögunum sé tilbúin að byrja hvenær sem er. Miðað við hversu fljótt eigi að ljúka viðræðunum hljóti þær að hefjast á allra næstu dögum.
Grunnstoðir fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju eru annars vegar kirkjujarðasamkomulag þeirra frá árinu 1997 og sóknargjöld hins vegar. Auk þess fær þjóðkirkjan framlög í gegnum svonefndan jöfnunarsjóð sókna sem tengist sóknargjöldum og kirkjumálasjóð.
Biskup segir að hvað kirkjujarðasamkomulagið varði sé aðeins ein grein sem hægt sé að endurskoða, sú þriðja. Í henni er kveðið á um að fjárframlag ríkisins geti breyst við fjölgun eða fækkun presta. Fjöldi þeirra fer eftir fjölda félagsmanna í kirkjunni.
Þjóðkirkjan vill helst sjá breytingar á fyrirkomulagi sóknargjalda í þeirri endurskoðun sem fyrir höndum er, að sögn biskups. Fulltrúar hennar hafa gagnrýnt skerðingar á sóknargjöldunum undanfarin ár en þeir líta á þau sem félagsgjöld sem ríkið sjái um að innheimta.
„Það þarf einhvern veginn að tryggja að sóknargjöldin skili sér til framtíðar, annað hvort með breyttum lögum eða samkomulagi á milli ríkis og kirkju varðandi þau,“ segir Agnes.
Spurð að því hvort að til greina komi að kirkjan taki sjálf að sér að innheimta félagsgjöld sín segist Agnes ekki vita það. Það sé samninganefndarinnar sem kirkjuþing kaus að taka afstöðu til þess.
Hún bendir hins vegar á að kirkjan sé ekki eina trú- eða lífsskoðunarfélagið sem fær sóknargjöld frá ríkinu. Því geti hún ekki samið um fyrirkomulag þeirra fyrir neinn annan en þjóðkirkjuna sjálfa.
„Við getum bara rætt það sem að kirkjunni snýr og hlustað á hugmyndir ríkisins um sóknargjöldin ef það er eitthvað sem varðar kirkjuna sérstaklega umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög í landinu,“ segir biskup.