Rafdrifinn Herjólfur gæti sparað milljarða

Herjólfur sést hér í Landeyjahöfn.
Herjólfur sést hér í Landeyjahöfn. mbl.is/Sigurður Bogi

Nýr Herjólfur verður hannaður til að vera eingöngu rafdrifin, en ferjan kemur hingað til lands sem „tvinnferja“. Innanríkisráðuneytið segir það vera lauslegt mat að um 170 milljónir muni sparast árlega vegna olíukaupa verði ferjan rafdrifin. Miðað við 20 ára líftíma yrði sparnaðurinn 3,4 milljarðar.


Þá megi reikna með því að ef Herjólfur verði rafdrifinn að öllu leyti verði engin losun gróðurhúsaloftteg­unda eða annarra mengandi efna. Áætluð ársnotkun dísilolíu sé um 1.200 tonn. Miðað við tölur um notkun nýrra dísilvéla megi reikna með að losun vegna olíubrennslu yrði sem samsvarar um 3.800 tonnum af CO2, en 20 ára líftíma yrði því samdráttur í losun um 76.000 tonn af CO2.

Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra í svari við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, um rafdrifinn Herjólf.

Oddný spyr m.a. hvort gert sé ráð  fyrir því við hönnun nýs Herjólfs að ferjan geti verið rafdrifin að hluta eða öllu leyti og hlaðin í landi. Ef ekki, hvað megi gera ráð fyrir miklum kostnaðarauka við að bæta þeim möguleika við?

„Ferjan er hönnuð til að verða ein­göngu rafdrifin. Hún kemur þó sem „tvinnferja“ sem þýðir að hún verður knúin dísilvélum sem framleiða rafmagn og hlaða inn á rafhlöður. Vegna þess hve ör þróun er í framleiðslu á rafhlöðum og að notkun rafdrifinna ferja er á byrjunarstigi, og aðeins á styttri siglingaleiðum en leiðin á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja er, var ákveðið að stíga skrefið ekki til fulls í rafvæðingu ferjunnar. Ein af helstu ástæðum þess er að í tilviki Herjólfs er verið að hanna skip sem þarf að sigla á erfiðri siglingaleið. Af þeim sökum er ekki talið skynsamlegt að nýta slíkan búnað til fulls fyrr en meiri reynsla er komin á hann,“ segir í svarinu.

Einnig er spurt, hvort flutnings- og dreifikerfi raforku í höfnum Herjólfs ráði við að standa undir hleðslustöðvum fyrir ferjuna. 

Í svari ráðherra segir, að miðað við þá tækni sem sé fyrir hendi í dag þurfiað styrkja raforkukerfið eða koma fyrir hleðslustöð í höfnunum. 

Oddný spyr ennfremur, hve mikill yrði sparnaður í olíukaupum á ári og á líftíma ferjunnar ef hún yrði að mestu eða öllu leyti rafdrifin.

„Miðað við olíuverð í dag er lauslegt mat að um 170 millj. kr. spöruðust árlega vegna olíukaupa. Miðað við 20 ára líftíma yrði sparnaðurinn 3,4 milljarðar kr. Frá því drægist síðan kostn­aður við rafmagn,“ segir í svarinu.

Svar ráðherra



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert