„Það er nokkuð ljóst að landsmenn eru ekki mikið fyrir að hrófla við hefðum,“ segir Guðrún Helga Jónasdóttir, innkaupastjóri erlends efnis hjá Ríkisútvarpinu. Ákveðið hefur verið að bregðast við fjölda ábendinga frá landsmönnum og sýna norska jóladagatalið Jól í Snædal samhliða danska dagatalinu Tímaflakkinu. Það fyrrnefnda var fyrst sýnt hér á landi árið 2010 og var það talsett á íslensku.
Miklar umræður sköpuðust á samfélagsmiðlum í gærkvöldi eftir að fyrsti þáttur jóladagatalsins var sýndur. Jóladagatalið Tímaflakkið er á dönsku og textað á íslensku.
Bentu margir á þá staðreynd að markhópur jóladagatalsins er börn, oft niður í tveggja til þriggja ára og skilja þau í fæstum tilvikum ekki dönsku. Þá hafi fæst þeirra lært að lesa og því sé nauðsynlegt að talsetja efnið.
Guðrún Helga segir að dagatalið hafi verið sýnt á Norðurlöndunum í fyrra og vakið mikla lukku. Aðalsöguhetjan er þrettán ára gömu stúlka og er það ætlað eldri börnum. Í ljósi þess hafi verið talið hjákátlegt að talsetja efnið og var frá upphafi ákveðið að hafa aðeins íslenskan texta með danska talinu.
Eftir að fjölmargar ábendingar bárust í gær var ákveðið að bregðast við óskum landsmanna um talsett dagatal fyrir börnin og verður jóladagatalið Jól í Snædal endursýnt. Segir Guðrún Helga að það hafi fallið í góðan jarðveg árið 2010 og því hafi það orðið fyrir valinu.
Hún hefur litlar áhyggjur af því að of skammur tími sé liðinn frá því að efnið var sýnt síðast því áhorfendahópurinn endurnýist fljótt. Fyrstu tveir þættirnir verða sýndir í kvöld og síðan koll af kolli fram að jólum líkt og venjan er. Verða þeir bæði aðgengilegir í línulegri dagskrá og á KrakkaRÚV á netinu.
Guðrún Helga bendir á að meira hafi verið framleitt af íslensku jólaefni í ár en fyrri ár. Kvikmyndin Klukkur um jól verður sýnd í þremur hlutum, tvo sunnudaga og á aðfangadag. Frá 15. desember verða þættirnir Jólin með Jönu Maríu sýndir á virkum dögum en þeir eru átta talsins. Þá verður Kuggur, íslenskt leikrit eftir Sigrúnu Eldjárn, sýnt á öðrum degi jóla.
Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega sjöhundruð manns skorað á Ríkisútvarpið að hafa gamalt íslenskt jóladagatal aðgengilegt í Sarpinum í ár, til að mynda Á baðkari til Betlehem, Tveir á báti eða Jól á leið til jarðar.
Frétt mbl.is: Vilja íslenskt jóladagatal í Sarpinn
Frétt mbl.is: Óánægja með jóladagatal RÚV