Zuism fimmta stærsta trúfélagið

3.130 félagar voru skráðir í Zuism í dag.
3.130 félagar voru skráðir í Zuism í dag. Mynd/Facebooksíða Zúista

Félagar í trúfélaginu Zuism eru 3.130 talsins samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár. Þetta ætti því að verða sá grunnur sem notaður er til útreiknings á sóknargjöldum fyrir árið 2016, en það þýðir að félagið gæti fengið um 33,7 milljónir á næsta ári. Eru tölurnar reyndar birtar með fyrirvara um að enn geti einhverjar breytingar orðið, meðal annars varðandi skráningar sem berist í pósti. Mun Hagstofa Íslands síðar gefa út formlega skiptingu sóknargjalda.

Samkvæmt fjárhagsáætlun ríkisins er gert ráð fyrir að sóknargjöld næsta árs verði 898 krónur á hvern einstakling á mánuði á næsta ári, en það þýðir 10.776 krónur yfir árið. Miðað við þann fjölda sem nú er skráður í félagið hjá Þjóðskrá munu heildarsóknargjöld félagsins nema 33.728.880 krónum.

Af þeim sem eru nú í félaginu eru tveir þriðju hlutar karlmenn, eða 2.104 einstaklingar og 908 konur. Ótilgreindir eru 118, en það geta meðal annars verið þeir sem eru búsettir erlendis. Í fyrra voru þrír einstaklingar í félaginu þannig að aukningin undanfarið ár hefur verið gríðarleg.

Félagið er nú stærra en Ásatrúarfélagið og Hvítasunnukirkjan á Íslandi og er komið í fimmta sæti yfir stærstu trúfélög landsins, á eftir Þjóðkirkjunni, Kaþólsku kirkjunni, Fríkirkjunni í Reykjavík, Fríkirkjunni í Hafnarfirði og Óháða söfnuðinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert