ENDURFÆÐING er síðasta verkið sem sett er upp á árinu til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Í lýsingu á verkinu segir að með því sé skapaður griðastaður í formi móðurlífs þar sem tækifæri gefst til að endurheimta það hugarsástand þar sem misrétti og fordómar voru okkur með öllu framandi. Rýmið bjóði þannig upp á svigrúm til að hugleiða hvernig við getum verið betri fyrirmyndir og þannig stuðlað að jákvæðum breytingum í samfélaginu.
„Tilgangur verksins er að vekja fólk til umhugsunar um að misrétti og fordómar eru viðhorf sem við þróum með okkur út frá fyrirmyndum. Einu sinni voru allir í formi lítillar frumu sem fann sér stað til þess að dafna. Fyrsta vagga okkar allra er úr nákvæmlega sama efniviði. Það er fyrst þegar við yfirgefum hana að mismunun á sér stað. “
Hægt verður að liggja og koma sér fyrir inn í verkinu en það er ofið úr kaðli á vegg rétt eins og klifurgrind á leikvelli. Í lýsingu verksins segir að þétt kaðlalagið skapi notalega stemmingu innan í móðurlífinu.
ENDURFÆÐING verður aðgengilegt almenningi á vesturgafli húss Sjávarklasans frá og með föstudeginum 4. desember 2015 en höfundur verksins er Karen Briem.