Ekki er útséð um að hægt verði að sigla áfram í Landeyjahöfn í vetur. Herjólfur mun sigla í Þorlákshöfn a.m.k. til 4. desember.
„Ef það gefur gott veður til dýpkunar og við sjáum fram á góða daga og að geta opnað höfnina, þá munum við gera það,“ segir Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar, í Morgunblaðinu í dag.
Síðustu dýptarmælingar sýndu grynningar á litlu svæði í hafnarmynninu sem ollu því að Herjólfur komst aðeins þar um á háflóði. Ölduhæð hefur einnig verið til trafala. Dýpið gæti verið breytt nú en það verður aftur mælt áður en ákveðið verður um frekari dýpkun. Til eru fjármunir fyrir henni að sögn Vegagerðarinnar.