Síðan trúfélagið Zúsistar á Íslandi (skráð sem Zuism hjá sýslumanni) gaf út að það ætlaði að endurgreiða fólki sóknargjöld hefur fólk hrúgast í söfnuðinn. Á sama tíma hafa margar spurningar vaknað upp um félagið og þá sem stjórna því. Í gær sagði RÚV frá því að samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra væru tveir bræður skráðir fyrir trúfélagi Zúista. Var jafnframt rifjað upp að þeir væru grunaðir um umfangsmikil fjármunabrot í tengslum við hópfjármagnanir á netinu. Í kjölfarið kom forsvarsmaður félagsins í Kastljós og sagði að bræðurnir væru ekki tengdir félaginu.
En hvernig geta einstaklingar sem eru skráðir fyrir félagi ekki verið tengdir því? Mbl.is ákvað að skoða aðeins hvað felst í því að stofna trúfélag, hvaða skyldur fylgja því og hver fái þá fjármuni sem úthlutað verður.
Halldór Þormar Halldórsson, umsjónamaður sérverkefna hjá sýslumanni og umsjónarmaður skráningar trúfélaga segir að allir geti í raun stofna trúfélög samkvæmt stjórnarskránni. Til viðbótar við það séu sérlög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, en hægt er að sækja um opinbera skráningu. Í því felast réttindi og skyldur og þá myndast réttaráhrif, t.d. með því að forstöðumanni verður heimilt að gefa saman fólk í hjúskap. Þá fá skráð trúfélög hlutdeild í því sem ríkið innheimtir í sóknargjöld, en það er rúmlega 10 þúsund krónur á ári.
Vegna greiðslnanna úr ríkissjóði og réttaráhrifanna sem forstöðumaðurinn fær er haft opinbert eftirlit öllum trúfélögum. Það felst meðal annars í því að þau þurfa að skila inn ársskýrslu um reksturinn og upplýsingum um breytingar á ráðstöfun fjármuna. Segir Halldór að í raun dugi skil á ársreikningi til þess síðar nefnda.
Í lögum um trúfélög og lífsskoðunarfélög kemur fram að skilyrði fyrir skráningu trúfélags sé að félagið byggi á átrúnaði eða kennisetningum og að félagið hafi náð fótfestu og sé með virka og stöðuga starfsemi. Þá þurfi félagið að sjá um tilteknar athafnir, eins og giftingar, skírnir eða nafnagiftir. Halldór segir auðvitað matskennt hvað séu reglulegar athafnir en að það þurfi alla jafna að vera einhver starfsemi í hverjum mánuði. Hægt er að afturkalla leyfi trúfélaga uppfylli það ekki þessar skyldur, en þá þarf að gæta meðalhófs og er meðal annars send áskorun á trúfélagið að bæta sig. Þá getur trúfélag kært ákvörðun um afskráningu til innanríkisráðuneytisins.
Þess má geta að zúismi er ein elstu trúarbrögð heims og má rekja aftur til forn-súmera. Á heimasíðu félagsins er þetta útlistað nánar: „Zuism byggir á ritum frá Súmeríu sem er talin elsta siðmenning heimsins og trú þeirra er einnig sú elsta sem vitneskja er um. Það er trú Zúista að Zuismi og forn-súmersk trú sé grunnurinn að öllum helstu trúarbrögðum sem iðkuð eru í dag. Zuism er kominn af forn súmerskum trúarbrögðum. Við trúum að alheiminum sé stjórnað af af hópi lifandi vera, sem hafa mannlega mynd en eru ódauðlegar og búa þær yfir yfirnáttúrulegum kröftum. Þessar verur eru ósýnilegar augum manna og leiðbeina og stjórna alheiminum í samræmi við vel lagðar áætlanir og lögmál.“
Fyrir hvert trúfélag er skipaður forstöðumaður, en hann er almennt andlit trúfélagsins út á við og andlegur leiðtogi, eigi það við. Trúfélagið sjálft er ekki lögaðili eða með kennitölu, en samhliða trúfélaginu er oftast rekið rekstrarfélag sem sér um daglegan rekstur félagsins, fasteignir, móttöku sóknargjalda o.s.frv. Það er einmitt þarna sem mesti misskilningurinn er í sambandi við félag Zúista og hver það er sem taki ákvarðanir um nýtingu fjármunanna.
Zúistar hafa gefið út að þeir séu að klára þá vinnu að stofna nýtt rekstrarfélag til að losna við fyrri stjórnendur félagsins af öllum skrám. Halldór staðfestir að ákvörðunarvald um hvert fjármunir renni sé í höndum forstöðumanns, en málið geti þó í einhverjum undantekningar tilfellum verið flóknara en svo. Þannig hafi rekstrarfélögin oftast stjórn og mögulega sé í lögum trúfélaganna að finna ákvæði sem feli stjórn rekstrarfélagsins slíkt ákvörðunarvald, slíkt þurfi þó að vera sérstaklega tilgreint.
Þær spurningar sem hafa komið upp hvort fjármunir Zúista muni renna til fyrrgreindra bræðra virðist því vera hægt að svara með því að núverandi forstöðumaður, sem sýslumaður hefur staðfest að sé Ísak Andri Ólafsson, geti látið breyta um rekstrarfélag á bak við trúfélagið og látið leggja sóknargjöld þar inn. Hafa Zúistar gefið út að skriffinnska í kringum málið hafi verið tafsöm, en að liggja muni fyrir upplýsingar um fyrirkomulagið í þessari viku eða þeirri næstu. Verður þá að fullu ljóst hvernig þessum málum verður háttað og hvaða stjórn verður yfir nýja rekstrarfélaginu.
Verður þá meðal annars kynntur endurskoðandi félagsins, en stjórnin hefur gefið út að hún muni ekkert koma að sóknargjöldunum sjálfum eða fjármunum félagsins. Ísak staðfestir við mbl.is að um sé að ræða styrka aðila í þessum geira, „ekki einhver dúddi út í bæ.“
Zúistar hafa sagt að þeir muni greiða sóknargjöldin til baka, að frádregnum umsýslukostnaði fyrir endurskoðanda og lögfræðinga. Aðspurður hversu mikill sá kostnaður verði segir Ísak að það sé ekki enn komið í ljós, en að stjórnin hafi lagt upp með skýr markmið í upphafi. Segir hann að allir hefðu lagt nafn sitt undir í þessu máli og ef það liti út fyrir að kostnaður væri mikill meirihluti af tekjum, þá myndu þau slíta félaginu.
Hann segir að ósk stjórnenda sé að kostnaðurinn verði ekki mikið meiri en um 800 krónur á hvern einstakling, þannig að hægt væri að greiða út meira en 10.000 krónur af hverjum sóknargjöldum. Segir hann að miðað við viðtökurnar síðustu daga megi þó gera ráð fyrir að hlutfallslegur kostnaður á hvern og einn verði enn lægri. Til að setja þetta í samhengi verða heildarsóknargjöld sem söfnuðurinn fær til sín um 30 milljónir króna miðað við að félagsmenn séu um þrjú þúsund talsins.
Helsta umkvörtunarefni Ísaks er þó að endurgreiðsla sem þessi verður að öllum líkindum skattlögð. Segir hann það skýrt dæmi um tvísköttun, því eftir að fólk hefur greitt skattana verður tíu þúsund kallinn ekki nema um sex þúsund.
Félagið fær sóknargjöld greidd mánaðarlega frá ríkinu en hefur sagt að endurgreiðsla til félagsmanna muni verða einu sinni eða tvisvar á ári til að draga úr umsýslukostnaðinum.
Eins og fyrr segir fylgja því líka skyldur að halda úti trúfélagi. Meðal annars að forstöðumaður safnaðarins geti gift fólk, séð um útfarir og annað slíkt. Ísak segir að hans skoðun sé að nafngiftir og annað slíkt eigi að fara fram hjá sýslumanni. „Við munum fylgja lögum, en þetta er einnig ádeila á kerfið,“ segir Ísak, en félagið auglýsir verðskrá sína á netinu og kostar þar gifting eða nafnagjöf 100 milljónir. Ísak tekur fram að þessu muni fylgja ágætist partý, en að restin muni fara til góðgerðamála.
Hann segist ekki búast við að margir muni nýta sér þessa þjónustu, „en auðvitað vonar maður að hægt sé að gefa þetta til góðgerðamála,“ segir hann og hlær.
Varðandi skylduna um reglulega fundi segir Ísak að félagið stefni á að halda utan um slíkt starf. Reyndar hafi fjöldinn aðeins breytt öllum áformum um það, en að nú sé í gangi hugmyndavinna við að finna hvernig hægt sé að halda reglulega viðburði fyrir svo stórt félag. Útilokar hann ekki að slíkt muni m.a. fara fram á ölstofum landsins.
Fyrsti viðburðurinn sem félagið lagði nafn sitt við var ljóðakvöld sem bókmenntafræðingurinn Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir hélt í gær. Þar fór hún með ljóð fyrstu nafngreinda skálds mannkynssögunnar, akkadísku hofgyðjunnar Enhedúanna sem samdi ljóð á súmersku til gyðjunnar Inönnu.