Snjóþyngsli undanfarinna daga hafa orðið til þess að starfsmenn Reykjavíkurborgar eru byrjaðir að fjarlægja snjó af götum og flytja hann út í flæðarmálið þar sem Elliðaá rennur út í sjó. Því verður haldið áfram næstu daga, að sögn Halldórs Ólafssonar, rekstrarstjóra umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar.
Í nótt byrjuðu borgarstarfsmenn að blása snjó af götum borgarinnar upp í vörubíla og losa hann í flæðarmálinu aftan við móttökustöð Sorpu við Sævarhöfða þar sem borgin hefur aðstöðu. Það er alla jafna ekki gert nema nauðsynlegt sé talið að fjarlægja snjó.
„Við eigum svolítið af snjó í Reykjavík og við þurfum orðið að keyra hann núna. Þetta er ekkert gert nema að það sé talið nauðsynlegt að fjarlægja snjó. Það er bara orðið svo mikið að við getum ekki komið þessu frá okkur og götur eru orðnar of þröngar. Þetta er bara orðið hættulegt,“ segir Halldór.
Síðasta vetur var snjór losaður niðri við Sundahöfn en Halldór segir að nú sé unnið á því svæði og því erfiðara að komast að því. Því er allur snjórinn losaður við Sævarhöfða.
Halldór gerir ráð fyrir að áfram þurfi að fjarlægja snjó af götum borgarinnar og munu borgarstarfsmenn halda áfram að blása snjó upp á bíla í nótt.
Að gefnu tilefni er rétt að benda á að losunarsvæðið er eingöngu á vegum Reykjavíkurborgar og er ekki ætlað fyrir einkaaðila til að losa snjó.